Ljósablaðið

1. TBL. 18. ÁRG 2024

„Allir í sömu stöðu“

Höfundur

Birgitta Björg Guðmarsdóttir

Ljósmyndari

Kári Sverrisson

Þegar Katrín fékk boð í skimun gerði hún ekki ráð fyrir að neitt væri að. Hún kallar þó ekki allt ömmu sína, enda hefur hún gengið í gegnum ýmislegt. Katrín greindist með hjartagalla fjögurra ára gömul og var fyrsta barnið á Íslandi til að fá gangráð það ung. Hún segist hafa farið létt í gegnum ferlið og að auðveldara sé að greinast með þekktan sjúkdóm eins og brjóstakrabbamein. Óvissan sé það versta.

„Mig grunaði ekki neitt, vissi ekki af neinu og fann aldrei neitt.“

Þegar Katrín varð fertug fékk hún boð um að koma í brjóstaskimun. Hún hafði aldrei farið áður en fékk umslag sent heim til sín. „Og ég var bara mjög spennt. Mér fannst þetta mjög forvitnilegt, að sjá hvernig þetta gengi fyrir sig á svona litlum dúllum, þannig ég fer bara fljótlega eftir afmælisdaginn í skimun. Ég er með hjartagangráð þannig að það var búið að segja við mig að það gæti verið að ég þyrfti að koma aftur, því gangráðurinn var aðeins fyrir. Þannig að mér brá ekkert við það að fá boð um að koma aftur. En þá hafði sést einhver blettur.“

Greiningin kom henni á óvart. „Mig grunaði ekki neitt, vissi ekki af neinu og fann aldrei neitt.“ Í ljós kom byrjunarstig á krabbameini. Mánuði seinna fór hún í fleygskurð og átti þar á eftir að fara í geisla, en vegna gangráðsins gekk það ekki upp. Katrín þurfti því að fara, nú í sumar, til Danmerkur í tvær hjartaaðgerðir til þess að ná að halda áfram með ferlið. En þegar aðgerðunum var lokið var orðið of seint að fara í geislana svo nú á að taka af henni brjóstið.

Handavinna skiptir Katrínu mjög miklu máli

„Þetta var kannski auðveldara en hitt“

Katrín er fædd og uppalin í Borgarnesi. Hún hefur frá fermingu verið mikil handavinnukona og eftir að hún kláraði stúdentinn fór hún til Danmerkur í handavinnunám. Hún útskrifaðist þaðan sem textílkennari árið 2008 og sneri aftur til að kenna í hússtjórnarskólanum í Hallormsstað, þar sem hún hafði verið nemi aðeins fimm árum áður. Þar kenndi hún í fimm ár áður en hún flutti síðan til Reykjavíkur. Hún hefur nú kennt í hússtjórnarskólanum í Reykjavík í ellefu ár. „Handavinna er algjörlega líf mitt og yndi,“ segir Katrín og leggur áherslu á að handavinnan hafi reynst henni vel í gegnum ferlið, ekki líði sá dagur sem hún taki ekki upp handavinnuna. „Ég held að það hafi hjálpað mér rosalega mikið, að ég hef alltaf eitthvað að grípa í. Að það er aldrei eitthvað að ég sitji bara og sé að hugsa. Ég er alltaf að gera eitthvað. Ég held bara að það sé mjög hjálplegt.“

Augnablik úr ferlinu

Katrín hefur tekið greiningunni með ró og segist hafa farið ótrúlega létt í gegnum þetta ferli. „Það var kannski erfiðast að segja fólkinu sínu. Upplifunin var svolítið sú að ég var ótrúlega fegin að þetta var ég, en ekki einhver annar í fjölskyldunni. Ég hef tekið þessu mjög létt.“ Aðspurð um það hvernig fjölskyldan hafi tekið þessu segir Katrín að fjölskyldan hafi tekið þessu með stóískri ró, „eins og þeim er von og vísa.“

„Ég á reyndar mjög afslappaða fjölskyldu, þannig að það eru allir algjörlega í rólegheitunum með þetta, en auðvitað hugsar maður samt að þau hugsa örugglega allskonar … en þau hafa tekið þessu með ró og yfirvegun. Og kannski er það líka að ég hef verið með þennan hjartagalla síðan ég var fjögurra ára. Ég gekk í gegnum ýmislegt þá, fór til Boston í aðgerð því ég var fyrsta barnið á Íslandi til að þurfa að fá gangráð svona ung. Það er ýmislegt flókið svoleiðis sem hefur gengið á, þannig að þau eru ýmsu vön.

Þetta var kannski meira þekkt, það eru margar konur sem fá brjóstakrabbamein, þannig að þetta var kannski auðveldara en hitt sem hefur verið um að vera. Og að þurfa að fara í þessa aðgerð til Danmerkur í sumar, af því að það var ekki hægt að gera þetta hérna heima, það reyndi kannski meira á fjölskylduna. Óvissan. Það var þægilegra að þetta er þekktara dæmi. Þá einhvern veginn er fólk rólegra með það.

Svo ég mæti á svona kynningarfund. Og mér finnst alveg yndislegt að vera hérna. Það er eitthvað sem ég er fegin að ég hafi ekki látið fram hjá mér fara.“

„Bara eins og að mæta í saumaklúbb“

„Ég greinist um miðjan desember, fer í aðgerð í janúar, og kem ekki í Ljósið fyrr en í maí. Ástæðan var í rauninni sú að ég tók þessu öllu svo létt og ég hugsaði með mér, það eru nú miklu fleiri sem þurfa mikið meira á því að halda heldur en ég að fara í Ljósið, en svo var veisla í skólanum þar sem ég er að kenna og ein mamman sem kom í veisluna, mamma nemanda, hún vinnur hér. Hún sagði við mig: „Ætlarðu ekki að fara að koma til okkar í ljósið?“ Og ég sagði: „Nee- mér finnst ég ekki þurfa á því að halda.“ Hún sagði: „Komdu allavega í prufu.“ Svo ég mæti á svona kynningarfund. Og mér finnst alveg yndislegt að vera hérna. Það er eitthvað sem ég er fegin að ég hafi ekki látið fram hjá mér fara.“

Katrín nýtir sér þá dagskrárliði hjá Ljósinu þar sem boðið er upp á handavinnutíma, leirvinnslu og svo hefur hún einnig nýtt sér ræktartíma, en þó í minna mæli. „Af því að ég var búin í raun að jafna mig á aðgerðinni og byrja í sumar. Þá er svolítið minni dagskrá. Ég mætti í svona handavinnumorgna, ég fór aðeins út í sal í sjúkraþjálfun, og svo byrja ég bara að vinna um miðjan ágúst. Og af því ég er kennari þá er ég ekki að kenna öllum stundum, þannig ég mæti hingað þegar ég er ekki að kenna. Eins og núna hef ég miðvikudags og fimmtudagsmorgna í fríi. Þá mæti ég hingað á miðvikudögum í leirinn, sem er alveg frábært – og á fimmtudögum í fatasaum. Þetta eru dagarnir sem ég get verið að mæta hingað og nýt þess alveg heldur betur.

Og einmitt fyndið að segja með leirinn, af því að ég er handavinnukennari þá vil ég alltaf vera hrein á höndunum og ég svona … þannig mér fannst alveg yfirþyrmandi að hugsa til þess að vera alltaf að potast í leir og vera alltaf svona skítug á höndunum. En svo er það alveg frábært. Ótrúlega gaman að vera að skapa sitt eigið og í hverri viku þegar maður kemur þá er búið að brenna eitthvað sem maður gerði síðast. Maður er alltaf að sjá eitthvað sem verður til. Það er ótrúlega skemmtilegt. Og það er held ég líka gefandi, það er eitthvað við þetta að vera að skapa eitthvað. Fá að sjá eitthvað verða til. Það gefur eitthvað svo gott í hjartað.“

Þó Katrín hafi ekki nýtt sér sjúkraþjálfunina mikið hingað til fer hún í aðra aðgerð á næstunni og ætlar þá að vera dugleg í ræktinni.

„Ég byrjaði bara aðeins úti í sal í sjúkraþjálfun, sem mér fannst mjög gott að mæta í, en af því að ég hef svona lítinn tíma núna þá tek ég handverkið fram yfir það. Fatasauminn og leirinn. En ég veit alveg, finn það alveg sjálf, á hreyfingunni, að ég þarf að fara að gera eitthvað meira, og auðvitað á maður að geta gert eitthvað heima, en maður gerir það bara ekki.“ Hún segist hingað til frekar hafa verið að sækja í félagslega starfið.

„Mér finnst ofboðslega gott að hitta fólk sem er í sömu stöðu og ég, sem veit alveg hvað þetta er sem maður er að velta sér upp úr.“ Hún leggur áherslu á að mikilvægt sé að þurfa ekki að rekja sína sjúkrasögu og láta einhverja vorkenna sér, „heldur eru bara allir í sömu stöðu.“

Aðspurð um hvernig henni líði innan veggja Ljóssins segist hún vera mjög ánægð með aðstöðuna. „Ég upplifi það alveg fullkomið. Svo heyrir maður að þetta sé alveg sprungið og svoleiðis – ég finn ekki fyrir því. Mér finnst þetta allt ofboðslega notalegt, og einmitt fullt af litlum rýmum, samtalsrýmum sem eru bara voða notaleg. En ég upplifi þetta ekki þröngt.“

Þegar lífið breytist, lærir maður að meta litlu hlutina

Og þó stundum sé þröngt á þingi segist Katrín kunna að meta það og segir það gera þetta meira náið. „Þegar maður kemur inn þá situr alltaf eitthvað fólk í kaffi, sem maður sér bara strax og maður kemur, getur bara sest í kaffi hjá einhverjum sem maður getur spjallað við. Þannig að ég upplifi bara notalegt rými hérna.“

Katrín segir að fólk deili ekki endilega sjúkrasögum sínum eða tali um þær dagsdaglega. „Það er kannski helst hjá okkur sem erum í leirnum. Það erum við sömu sem hittumst. Við sem spjöllum mest um það. En annars er þetta bara líka bara um daginn og veginn. Það er ekki að þetta snúist allt um veikindin, það er líka gott. Frekar kannski áhugamálin. Eða allavega í þessum hópum sem ég er í, bæði handavinnu og svo prjón hekl og útsaumur, einn hópur, þar er þetta meira bara um það sem við erum að gera og svoleiðis. Bara eins og að mæta í saumaklúbb.“

„Ég ætla að gera það sem mér finnst ofboðslega gaman að gera“

Fljótlega eftir greiningu ákvað Katrín að fara til Parísar í fyrsta sinn. „Og ég gjörsamlega heillaðist, mér fannst bara allt fallegt, það eru alls staðar blóm og eitthvað fallegt. Við systurnar fórum saman, borðuðum alls konar fallegan og góðan mat, fórum í blómabúðir og allt þetta, að skoða öll fallegu húsin og byggingarnar.“

Katrín býr ein með kettinum sínum og er alltaf með hljóðbók í gangi á meðan hún stundar handavinnu. „Og svo þegar ég fer upp í rúm á kvöldin þá les ég í bók. Ég hef ekki verið mikið í ljóðum, en ég hef rosa gaman að spakmælum, svona stuttum setningum sem segja ótrúlega mikið.“ Hún nefnir að í leirnámskeiðunum hjá Ljósinu skrifi hún gjarnan eitthvað í leirinn, eins og á kaffibollana sem hún býr til. „Þá skrifa ég eitthvað, einhverja áminningu.“

Katrín horfir afslöppuð en ekki kærulaus til framtíðar

Ein bók sem höfðaði sérstaklega til Katrínar á meðan ferlinu hefur staðið er bókin Vegur vindsins eftir Ásu Marin.

„Það er bók sem ég hef lesið nokkrum sinnum. Þegar ég greinist þá er ég nýlega búin að lesa þessa bók. Hún fjallar um stelpu sem greinist með brjóstakrabbamein og ákveður strax að fara að ganga Jakobsveginn.“ Katrín hugsaði strax að hún þyrfti að gera það líka, og þegar hún fór til Parísar var uppi spurning um hvort hún færi þangað eða Jakobsveginn. Systur hennar langaði að koma með. „En hana langaði ekki að fara Jakobsveginn. Svo ég hugsaði: Ég fer bara Jakobsveginn einhvern tíma sjálf.“

Spurð að því hvort henni finnst hún vera sama manneskja og hún var fyrir greininguna, hvort hún hefði fundið fyrir breytingu á sér, segist Katrín nú gefa sjálfri sér frekar leyfi til að gera það sem hana langar að gera. „Maður hugsar bara, já það getur alls konar komið upp á, ég ætla að gera það sem mér finnst ofboðslega gaman að gera.

„Ég veit ekki alveg hvort það sé þetta eða hvort það sé aldurinn, en mér finnst ég meira afslöppuð, ég segi ekki kærulaus, en já einmitt meira afslöppuð, segja æ þetta er allt í lagi, og vera ekki að velta sér upp úr einhverju sem skiptir ekki máli. Ég held ég finni það alveg smá svona, æ ef það kemur upp eitthvað smávægilegt vandamál, þá er það allt í lagi, það leysist. Það er kannski einhver smá svona hugsunarháttur. Vertu bara slök – þetta er allt í lagi.“