Ljósablaðið

1. TBL. 18. ÁRG 2024

Árið að baki

Höfundar

Sólveig Pálsdóttir

Heiða Eiríksdóttir

Ljósmyndari

Ýmsir

19. starfsár Ljóssins er senn á enda og fátt skemmtilegra en að renna í gegnum augnablikin stór sem smá sem við höfum átt með fólkinu okkar. Hér stiklum við á stóru og förum yfir það sem liðið er af þessu ári í máli og myndum. Augnablikin eru mörg og dýrmæt í Ljósinu á degi hverjum.

Það var að vanda líf og fjör frá ársbyrjun. Auðunn Gunnar Eiríksson hjólaði inn í árið fyrir Ljósið og safnaði áheitum með hvorki meira né minna en 25 klukkustunda hjólatúr innanhúss. Sófaspjallið var á sínum stað yfir góðum kaffibolla og fyrr en varði var kominn öskudagur þar sem ýmsar furðuverur fóru á stjá.

Bolludagurinn var að venju haldinn hátíðlegur með girnilegum rjómabollum. Við smelltum af ungu mönnunum okkar á góðri stund í hádegishittingnum þeirra. Í Ljósinu leggjast allir á eitt við heimilisstörfin og brjóta þvottinn yfir sófaspjallinu, hversu notalegt?

Handverkið var fjölbreytt, litríkt og skemmtilegt að venju. Ýrúrarí kom og hélt spennandi vinnustofu þar sem sköpunargleðin fékk lausan tauminn mell ull og nál að vopni.

Í maí voru línur lagðar fyrir Ljósavinaverkefnið "Hópar landsins láta Ljósið skína!" Upptökur fóru fram á Nasa við Austurvöll. Allir lögðu sitt af mörkum við að glæða þessu fallega verkefni lífi. Þáttakendur og fagfólk unnu af mikilli fagmennsku og einlægni. Algjörlega magnað teymi!

Það má alltaf eiga von á góðu í eldhúsi Ljóssins sem er rómað fyrir góðan næringarríkan mat og einstaklega brosmilt starfsfólk. Námskeið og fræðsla hefur að vanda haldist fjölbreytt og fræðandi í gegnum árið, og græni salurinn haldið vel utan um okkar fólk. Sveinn Jónsson gekk 400km á Jakobsveginum til styrktar Ljósinu, þvílíkt afrek!

Árleg fjölskylduganga var fjölmenn og skemmtileg í fínasta veðri. Boðið var upp á andlitsmálun og létta hressingu að göngu lokinni.

Prjónahópurinn okkar færði vöggudeild bangsa og kolkrabba til að gefa áfram til minnsta fólksins okkar sem þangað leitar. Alveg er það magnað hvað það er brosmilt starfsfólk hjá Ljósinu og svo spyr maður sig hvort þjálfararnir heyrist fyrir vinnu til að mæta í fatnaði í stíl.

Samstarfsverkefni Nettó og Ljóssins „Kveikj­um Ljósið í júlí“ fór af stað í annað sinn. Í ár fengum við til liðs við okkur listakonuna Unni Stellu hjá Start studio sem málað fallegt verk innblásið af Ljósinu. Verkið prýðir veglegan taupoka og Jenga spil. Virkilega ánægjulegt og fallegt samstarf við Nettó.

Reykjavíkurmaraþonið var á sínum stað og var fjöldinn allur af dugmiklum einstaklingum og hópum sem hlupu fyrir Ljósið. Þetta er svo sannarlega einn af uppáhaldsdögunum okkar í Ljósinu, þar sem samtakamátturinn og krafturinn er magnaður hvort sem er hjá hlaupurunum eða á klappstöð. Ljósið bauð uppá hitting og hressingu í miðbænum að hlaupi loknu.

Hópar landsins létu Ljósið skína þegar nýju ljósavinaverkefni var hleypt af stokkunum á Sjálandi. Lifandi tónlist, frumsýning á myndbandi ásamt uppistandi. Mæting var framar vonum á þessa virkilega góðu stund.

Knattspyrnufélagið Fram fékk hönnuðinn Gunnar Hilmarsson til liðs við sig og var hönnuð ný og glæsileg treyja sem fór í sölu á lokaleik tímabilsin í dal draumanna á heimavelli Fram.

Hinn árlegi Ljósafoss var haldinn í nóvember þar sem mikill fjöldi tók þátt. Alveg er það magnað hvað veðurguðirnir eru okkur hliðhollir ár hvert þegar táknræni og magnaði fossinn hlykkjast niður Esjuhlíðar.

Stuðningur einstaklinga og félaga við starfsemi Ljóssins skiptir gríðarlegu máli.

Við reynum eftir fremsta megni að smella af þegar einstaklingar og fyrirtæki koma til okkar. Hér má sjá brot af þeim myndum sem við höfum náð að smella af það sem af er ári. Máttur samfélagsins er ómetanlegur og skiptir sannarlega sköpun fyrir þau sem greinast með krabbamein.