Spretthlaup í leit að jólagjöfum í ágúst
Hjördís minnist á vinahóp sem myndaðist á meðan hún var hjá Ljósinu og kallar sig Grágæsirnar. Þetta er hópur kvenna sem sótti grunnnámskeiðið saman, var í sjúkraþjálfun á sama tíma og á saumanámskeiði. En húsið hristi þær saman, þær fóru saman í hádegismat og hittust síðan yfir daginn í hinum ýmsu námskeiðum. „Sumar þeirra fóru í leirinn og urðu alveg hooked á því – ekki ég. Maður var svona: er ekki hægt að læra eitthvað praktískt? Ég meina steinamálun, hvað er það? Ég hefði helst viljað segja: Jú, heyrðu en nýja útgáfu af Excel? Viltu fara í það?“ segir Hjördís og hlær.
„Við vorum allar með sitthvort – mismunandi krabbamein. Sumar höfðu bara farið í uppskurð, sumar höfðu bara farið í lyf, sumir í geisla, þannig að það var allur gangur á þessu. Það sem var kannski erfiðast er svo að einhverjir hurfu úr. En þetta hefur bara verið mjög gott og gaman, að eiga þessar konur að. Við vorum alltaf með eitthvað svona pálínuboð, það áttu allir að koma með eitthvað. Svo erum við náttúrlega bara hættar því og förum bara út að borða.“
Hjördís nefnir sjúkraþjálfunina sem annað dæmi um jafningjastuðning. „Ég hafði aldrei hlaupið, og við vorum með sjúkraþjálfa hér sem sagði nú komiði bara, við eldri konurnar, og hlaupið hálft maraþon í ágúst. Og þú veist, ég er með lungnakrabbamein, ég hugsa er hún klikk? En nei nei, svo bara æfðum við fyrir maraþonhlaupið, og ég var ekkert smá montin þegar ég kláraði það. Og við vorum þó nokkuð margar. Það er nú kjarninn í þessum grágæsahóp og svo einhverjar fyrir utan. Það höfðu ekki allir heilsu í þetta.“
Hjördís segir frá því hvernig það hafi einnig verið gott að sjá hvernig fólk brást mismunandi við greiningunum sínum. Tvær konur í grágæsahópnum skildu, aðrar ákváðu að ferðast um allan heim og hafa gert síðan. „Þú endurskoðar, bíddu ókei er þetta it. Er ég bara að fara að deyja? Ég hljóp í ágúst þegar ég var í Leuven, spretthlaup, til að reyna að kaupa jólagjafir, af því að ég var viss um að ég yrði ekki til um jólin. Og ég treysti ekki manninum mínum til að sjá um jólagjafirnar.“
Hjördís segist svo ekki hafa getað horft á sjónvarp né lesið skáldsögur þegar hún stóð frammi fyrir dauðanum árið 2016, heldur hafi hún verið fréttafíkill.
„2016, það var þegar Brexit kosningarnar voru í Bretlandi. Ég lá svo mikið og var alltaf að hlusta á BBC og það var fjallað í einhverja mánuði bara um Brexit og ég hugsaði: Ji hvernig fer þetta. ég dey örugglega áður en ég veit. Og mér fannst það hryllilegt, ég var bara búin að búa til mína eigin búbblu og þetta var bara stærsta málið, sko hvað verður um Brexit. En svo lifði ég það náttúrulega af og er búin að horfa á hvernig þeir klúðruðu og lugu öllu, en já þetta gerði ég á spítalanum.“