Nú í haust var Ágúst Ólafur Ágústsson, hagfræðingur og lögfræðingur, fenginn til að greina hagræn áhrif af starfsemi Ljóssins. Ágúst vann skýrslu þess efnis sem kom út í nóvember þar sem lagt var m.a. mat á beint og óbeint framlag starfsemi Ljóssins til hagkerfisins og samfélagsins. Þar var einnig lagt mat á hvað virði starfsemi Ljóssins var fyrir hið opinbera og ekki síst hvað sú starfsemi myndi kosta hið opinbera og samfélagið ef ekki nyti við starfsemi Ljóssins. Við hittum Ágúst á förnum vegi og ræddum við hann um efni skýrslunnar og hans kynni af starfsemi Ljóssins.
„Ég verð að viðurkenna að ég hafði ekki gert mér fulla grein fyrir mikilvægi starfseminnar og hvað t.d. Landspítalinn í raun reiðir sig mikið á Ljósið. Fagmennskan, hlýjan og stuðningurinn sem einkennir allt starf Ljóssins skein í gegn“, sagði Ágúst Ólafur. „Augljóslega er um að ræða lykilstarfsemi í endurhæfingu krabbameinsgreindra.“
„En þegar fjárlagafrumvarp næsta árs var lagt fram í haust kom hins vegar í ljós að framundan var niðurskurður á milli ára á fjármunum til Ljóssins. Af því tilefni var leitað til mín og greindi ég starfsemi Ljóssins meðal annars með það í huga að finna út hvað starfsemin væri í raun að spara hinu opinbera. Ég komst fljótt að því að ávinningur hins opinbera af starfsemi Ljóssins liggur ekki síst í minna álagi á Landspítalann, heilsugæsluna og á aðrar heilbrigðisstéttir, lægri lyfjakostnaði, aukinni atvinnuþátttöku fólks og þar af leiðandi auknum skatttekjum og lægri útgjöldum vegna sjúkra- og örorkubóta svo eitthvað sé nefnt. Þessu til viðbótar stuðlar auðvitað endurhæfing Ljóssins að bættum lífsgæðum og virkni þúsunda landsmanna“, sagði Ágúst.
„Þetta var augljóst í okkar huga en við þurftum tölur til að fylgja þessu eftir. Niðurstaðan af þessari greiningu var síðan að starfsemi Ljóssins skapar um eins milljarðs króna árlegan ávinning fyrir hið opinbera. Ávinningur ríkisins af starfsemi Ljóssins er því þrisvar sinnum hærri en sú upphæð sem Ljósið fékk frá ríkinu á þessu ári sem er um 330 mkr“, segir Ágúst.
„Eftir að þetta lá fyrir, þá fórum við að herja á stjórnvöld og nýttum við, með Ernu í fararbroddi, m.a. skýrsluna í samtölum okkar við ráðherra og þingmenn. Öllum þrýstingi var beitt svo ég tali nú bara mannamál“.
„Staðan var sérstaklega snúin þar sem nú var búið að boða óvæntar alþingiskosningar og því nánast enginn tími til stefnu og eingöngu starfsstjórn í landinu sem vildi gera sem minnst breytingar á fjárlagafrumvarpinu. Þeir þingmenn sem við töluðum við, tóku hins vegar vel í okkar málstað og skemmst er frá því að segja að okkur tókst, samanlagt í fjáraukalögum og fjárlögum næsta árs, að tvöfalda þá fjárhæð sem átti upprunalega að renna til Ljóssins í fjárlagafrumvarpinu eins og það lá fyrir“, sagði Ágúst.
„Þetta var því mikilvæg leiðrétting en næsta vor verður lögð fram ný 5 ára fjármálaáætlun stjórnvalda og skiptir því máli að fjárhagsgrundvöllur Ljóssins verði tryggður til frambúðar. Baráttunni er því ekki lokið en ef starfsfólk Ljóssins þekkja eitthvað vel, þá er það að halda í vonina og berjast“, sagði Ágúst Ólafur að lokum.
Við þökkum Ágústi fyrir spjallið og hvetjum alla til að lesa skýrsluna.