Kristín Ingibjörg Mar, sem er nýorðin 66 ára, var farin að huga að starfslokum þegar hún greindist í annað sinn með brjóstakrabbamein. Í fyrra skiptið hafði hún ekki haft nokkra hugmynd um að neitt væri að, né fundið fyrir einkennum.
„Þetta var í febrúar og það hafði verið rosalega mikill snjór, svo kom asahláka þannig að færðin var mjög slæm. Ég átti tíma hjá lækni um hálftvöleytið, en var í vinnu til hádegis. Vegna veðursins hringdi ég og frestaði tímanum um nokkrar vikur. En það var eins og einhver bankaði í mig og segði: nei, ekki hætta við tímann. Ég hringdi aftur og sagði að ég hefði nýlega afbókað en gæti komið ef ekki er búið að ráðstafa tímanum. Hann var enn laus, svo ég tók leigubíl niður eftir. Þar kom í ljós eitthvert frávik sem kallaði á frekari rannsóknir. Að lokum þurfti að fjarlægja brjóstið hægra megin.“
Mögnuð kona sem hefur þann dýrmæta eiginleika að sjá björtu hliðarnar á lífinu og er þakklát fyrir að hafa greinst þegar birtan var sem mest.
Fyrir sex árum uppgötvaðist meinið snemma, brjóstið var tekið en Kristín þurfti hvorki að fara í lyfja- né geislameðferð. Hún jafnaði sig eftir aðgerðina og fór í árlegar eftirlitsskoðanir næstu fimm árin. „Ég hafði ekki fundið fyrir neinu óvenjulegu og var orðin svolítið slök með þetta. Hugsaði að allt væri í lagi og fór jafnframt að íhuga starfslok.“
Kristín hóf störf sem leikskólakennari árið 1990 og starfaði á sama leikskóla í 26 ár. Hún flutti svo upp í Breiðholt þar sem hún bjó sem unglingur. Þar hefur hún unnið undanfarin ár sem verkefnastjóri fjölmenningar auk þess sem hún vinnur inni á deild með börnunum. „Það hefur verið minn vettvangur alla tíð að vinna með börnum, alveg frá því að ég var ung. Mér hefur þótt það dásamlegt, einfaldlega skemmtilegasta starf í heimi.“ En hún bætir við: "Ég varð 65 ára 2023 og líkaminn var orðinn lúinn. „Ég hafði hugsað mér að hætta að vinna í mars-apríl 2024, en í janúar finn ég sjálf að það er eitthvað í vinstra brjóstinu.“
Kristín er umvafin góðu fólki. Hér er hún með dóttir sinni og barnabörnum áður en hárið fékk að fjúka sökum meðferða.
Þetta er ekki ókleift
„Þetta er auðvitað áfall, að greinast, það segir sig bara sjálft. En ég hef aðeins góða reynslu af heilbrigðiskerfinu, og um leið og ferlið hefst finn ég fyrir trausti. Í fyrra skiptið var utanumhaldið hjá Brjóstamiðstöðinni frábært, og ég ákvað að treysta fagfólkinu fyrir minni heilsu. Ég var svo heppin að þurfa í rauninni ekki að fara í meiri meðferð og kem frekar vel úr því ferli. Missti ekki móðinn en svo greindist ég aftur. Þó að mig langaði ekki að rifja þessa reynslu upp, þá treysti ég aftur fagfólkinu – en mér fannst ég samt alltaf hafa rödd."
Hún segir, "á tímabili í lyfjameðferðinni leið mér mjög illa, en ég fékk alltaf tækifæri til að ræða við lækni áður en haldið var áfram. Ég gat valið hvort ég vildi halda meðferðinni áfram, og hún var aðlöguð að mínum þörfum: skammturinn var mildaður og verkjastillingin endurskoðuð. Það var stöðugt komið til móts við mig og tekið mark á minni upplifun. Aldrei var mér sagt hvað ég „ætti“ að gera, heldur fékk ég alltaf að hafa áhrif á meðferðina. Það skipti mig ótrúlega miklu máli. Íslenskt heilbrigðiskerfi er frábært vegna fólksins sem þar starfar. Ég hef aldrei sokkið niður í djúpa andlega lægð, þó að ég hafi verið líkamlega mjög bág. Ég gat alltaf treyst því að allir gerðu sitt allra besta. Ég reyndi líka sjálf að vera jákvæð og leit á þetta sem verkefni, eins konar brekku sem hægt er að klífa. Þetta er ekki ókleift. Við göngum bara í gegnum þetta saman – ég og allir hinir – og sjáum hvernig fer."
Það er yfirleitt stutt í brosið hjá Kristínu sem jafnan hefur jákvæðnina að leiðarljósi
Gott fyrir andann að fara út
Seinna skiptið sem Kristín greinist var ekki jafneinfalt og það fyrra. Eftir að hafa fundið fyrir einhverju í byrjun ársins fór Kristín í rannsókn sem leiddi í ljós æxli í vinstra brjóstinu sem var stærra en það sem tekið var á sínum tíma. Fyrstu myndir bentu til þess að æxlið hefði ekki dreift sér í eitlana, en þegar kom að aðgerð, þremur vikum síðar, þurfti að fjarlægja alla eitla í holhöndinni. Í kjölfarið fór hún í lyfja- og geislameðferð, auk andhormónatöflumeðferðar. Hún hefur lokið fyrstu tveimur, hóf töflumeðferðina í ágúst og er nýbyrjuð að taka líftæknilyf, sem líkaminn er enn aðlagast. „Mér finnst ég enn í virku meðferðarferli, ég er ekki búin að ljúka neinu. Þetta er tveggja ára meðferð og ég finn áhrifin hennar, en mér finnst ég þó ekki vera jafn orkulaus og áður.“
Kristín segir að hún reyni alltaf að fara út að labba á hverjum degi og fullyrðir að það sé hennar "lífselixír". Á erfiðustu dögum lyfjameðferðar gat hún ekki farið út, en þá gekk hún um innandyra. Hún býr á þriðju hæð og var svo máttfarin að hún þurfti bókstaflega að hífa sig upp stigana með handriðinu. Í Bökkunum er gott að ganga á jafnsléttu, en uppáhaldsstaðurinn hennar er í holtinu milli efra og neðra Breiðholts, þar sem er skógur og skógarstígar. Á góðu dögunum gat hún tekið brekkurnar þar, annars fór hún bara innan hverfisins. En bætir við "það var fínt að reyna að fara út, það er svo gott fyrir andann."
Ég bara upplifi þetta bara sem verkefni, sem brekku, en þetta er ekki ókleift.
Líkamsrækt að eiga ekki bíl
Kristín hefur lengi nefnt það sem sína líkamsrækt að eiga ekki bíl, enda gengur hún mikið. "Ég fór aldrei í tækjasali fyrr en ég veiktist en núna þarf ég að stunda slíkar æfingar. Annars hef ég hjólað og gengið. Svo hugsaði ég líka oft að ég hafi greinst á heppilegum tíma, vegna þess að það var að verða bjart. Það var að koma vor og það var að koma sumar. Það er miklu betri tími, þegar þetta var hvað erfiðast. Ég held að þetta hefði verið svolítið erfiðara ef maður hefði farið inn í dimmasta hluta vetrarins, ég held að það skipti máli.“
Aðspurð hvaða áhugamál hún eigi sér svarar Kristín hiklaust bókalestur. „Ég les gríðarlega mikið. Það er kannski mitt helsta áhugamál en gönguferðir eru í raun áhugamál hjá mér. Ég er líka mikið með barnabörnum og dætrum – þannig að fjölskyldan rúmast innan þess að vera áhugamál."
Mæðgurnar í göngu á góðum degi, en útivist og hreyfing utandyra hefur verið hennar helsta líkamsrækt í endurhæfingarferlinu.
Þetta er heimilishús
„Ég kynnist Ljósinu þegar ég greindist 2018. Þá var mér bent á Ljósið ásamt Krabbameinsfélaginu. Og ég einhvern veginn lendi hérna megin. Þá fór ég í viðtöl hjá sjúkraþjálfara, félagsráðgjafa og iðjuþjálfa sem var mjög gott og styðjandi. Ég sótti námskeið fyrir þá sem greinast í fyrsta skipti. Ég hef aldrei farið í handverk hérna, eða neitt svoleiðis. Þannig að ég er þá frekar á einhverjum námskeiðum. Svo fór ég í tækjasalinn, sem mér fannst bæði rosalega leiðinlegt og hollt fyrir mig. Ég hef aldrei verið í svoleiðis æfingum en það var mjög gott.“
Kristín mætti í líkamlega endurhæfingu hjá Ljósinu tvisvar í viku, í tíma sem kallast Æfingar eftir brjóstakrabbamein. Hún fékk að fara fyrr úr vinnunni og þegar hvíldartíminn hófst á leikskólanum og tók hún strætó í Ljósið. Hún sótti það í nokkra mánuði og fann hvernig hún safnaði þreki og styrktist.
„Mér fannst náttúrlega ekkert koma neitt annað til greina í seinna skiptið en að mæta hingað. Og mæti hér á námskeið fyrir þá sem að greinast aftur. Og hef hérna sótt ýmis viðtöl og er núna byrjuð í tækjasalnum líka aftur.“
„Andrúmsloftið í Ljósinu er einstaklega hlýlegt og indælt. Það er alltaf gott að koma inn, því allir brosa og heilsa. Jafnvel þó að margir sem sækja staðinn glími við erfið veikindi, þá liggur það ekki í loftinu – það er ekkert niðurdrepandi, heldur þvert á móti uppörvandi og hvetjandi. Það er sannarlega uppbyggjandi að vera hér, og ég er afskaplega þakklát fyrir Ljósið.“
„Þegar þú kemur hingað inn er það ekki eins og að ganga inn á sjúkrahús," segir Kristín, "heldur inn á hlýlegt heimili, sem skiptir verulegu máli. Vegna þess hversu vel hefur spurst út af þjónustu staðarins, streymir hingað fjölbreyttur hópur fólks og er húsið því orðið nokkuð lítið fyrir allan þann fjölda. En það er einmitt hluti af heildarupplifuninni að þetta sé heimahús, sem eykur enn á mikilvægi staðarins.“
Alls gerði Kristín 134 mismunandi steinamyndir í meðferðarferlinu sem vinir og fjölskylda gátu fylgst með frá degi til dags.
„Ég varð alltaf betri og betri í þessu“, segir Kristín, sem greip til óvenjulegra ráða til að muna eftir að drekka nægan vökva á meðan lyfjameðferð stóð yfir. „Mér var ráðlagt að drekka tvo lítra af vatni á dag, því lyfin hafa svo mikil áhrif á líkamann að það er nauðsynlegt að skola þeim vel niður. Ég velti fyrir mér hvernig ég gæti minnt mig á að drekka þetta magn á hverjum degi.
Heima hjá mér er fjöldi steina, því við fjölskyldan mín erum miklir náttúruunnendur. Þegar ég var lítil fórum við oft út að tína fallega steina, til dæmis í Hvalfirði þar sem við leituðum að fjölbreyttum og formfögrum steinum í fjörunni. Ég hef alltaf haft áhuga á steinum, sérstaklega hjartalaga steinum, og á einnig nokkra slípaða steina, bæði innlenda og erlenda. Faðir minn starfaði á Iðntæknistofnun, þar sem hægt var að slípa steina, og ég á ýmsa steina frá honum. Svo á ég líka bæði smásteina og örsmáa steina sem ég hef tínt upp hér og þar. Allur þessi steinasafnshópur kom mér að góðum notum við að halda vatnsdrykkjunni í fyrirrúmi.“
Sannarlega falleg og áhrifamikil steinaverk sem Kristín skapaði fyrir sig og fjölskylduna á hverjum morgni.
„Í eldhúsglugganum geymi ég þessa steina í ýmsum skálum, og á eldhúsborðinu er tréskál full af óslípuðum steinum, baggalútum og fleiru. Barnabörnin mín hafa alltaf leikið sér með þá, raðað þeim upp, bætt við tölum og búið til mynstur. Mér finnst gaman að sjá börnin skapa eitthvað úr náttúrulegum hlutum. Með steinana innan handar datt mér í hug að nota þá til að minna mig á að drekka nógu mikið vatn. Ég tók þá ákvörðun að velja tuttugu steina á hverjum degi, þar sem hver steinn stendur fyrir 100 ml og þegar ég hef flutt þá alla hef ég drukkið tvo lítra.“
„Ég raðaði tuttugu steinum á disk eða platta til að búa til mynd. Hvert glas eða múmínbolli sem ég drakk oftast úr var um 200 ml, þannig að fyrir hvert glas sem ég kláraði, tók ég tvo steina úr myndinni og setti þá aftur í gluggann eða í skálina. Þegar myndin var orðin tóm, vissi ég að ég hafði drukkið tvo lítra yfir daginn. Stundum þegar leið á daginn voru enn eftir sex steinar, þá var ég minnt á að hraða mér að ljúka markmiðinu. Ég tók jafnframt mynd á hverjum morgni og sendi dætrum mínum. Þetta varð að spennandi áskorun - og ég varð alltaf betri og betri í þessu held ég.“
Kristín endurtók þetta hefð daglega alla lyfja- og geislameðferðina sem gerði 134 myndir í heildina. Uppátækið vakti gleði hjá allri fjölskyldunni. Barnabörnin fylgdust spennt með, og ef þau komu í heimsókn þá fengu þau að taka þátt sem gestalistamenn. Þegar þau ferðuðust til útlanda, tíndu þau steina eða keyptu fallega steina á mörkuðum og færðu henni. Þetta varð því ekki aðeins hagnýt aðferð fyrir Kristínu sjálfa, heldur líka sameiginlegt verkefni sem glæddi fjölskylduna og vinina áhuga. Í þessu fólst ákveðin gleði sem smitaðist út frá sér.
Þetta var einhvern veginn ekki bara fyrir mig – þetta var líka fyrir fjölskylduna og vinkonur mínar, ég var stundum að senda þeim og þeim fannst þetta fallegt. Það er einhver gleði í þessu.
Ullarhlýja og umhyggja
Það var þó ekki það eina sem Kristín upplifði frá vinum og fjölskyldu. „Tvær vinkonur mínar tóku sig til, án minnar vitundar, og höfðu samband við dætur mínar. Þær spurðu hvort ég væri í einhverjum hópum eða klúbbum. Ég er meðal annars í bókaklúbbi, í hópi með gömlu fóstrunum eins og við köllum okkur, og fleiri vinkvennahópum. Þær tengdu alla saman og þetta varð til þess að mikil prjónavinna fór af stað, bæði hér heima og í Noregi, og að lokum söfnuðust saman 192 bútar í fjölbreyttum litum. Þær saumuðu alla þessa búta saman í eitt fallegt teppi, sem ég fékk að gjöf. Á lítinn miða, sem var saumaður inn í teppið, stóð „ullarhlýja og umhyggja“. Þetta var ótrúlega fallegt og mikill kærleikur sem fór í þetta teppi."
Fallegu verkin sýna að hlutirnir þurfa hvorki að vera flóknir né dýrir til þess að hafa mikil áhrif. Hugmyndauðgi og jákvæðni Kristínar gerði vatnsdrykkjuna að skemmtilegum leik.
„Í lyfjameðferðinni var mér oft mjög kalt, líkamanum var eins og stöðugt upptekinn við að vinna úr lyfjunum, svo mér tókst ekki að halda á mér hita. Teppið sem þær gáfu mér var því ekki bara falleg gjöf, heldur líka einstaklega hlýtt, og það var unaðslegt að vefja sig í það. Um þrjátíu einstaklingar tóku þátt í verkefninu, þar á meðal samstarfsfólk mitt á leikskólanum sem vildi endilega vera með. Teppisbútarnir voru til dæmis prjónaðir í kaffipásum, þar sem hver sem vildi gat sest niður, prjónað örlítið og svo tók næsti við."
Aðspurð segir Kristín finna greinilegan mun á sjálfri sér eftir ferlið. Hún segist ekki sjá fram á að fara aftur að vinna, en er spennt að prófa að vinna sjálfboðastarf þegar hún hefur náð sér „Ég upplifi mig svolítið sterka, sem er bara mjög jákvætt. Að geta tekist á við þetta. Ég hef aldrei litið á veikindin sem ósanngjarna lífsreynslu, heldur einfaldlega sem hluta af lífinu. Fólk veikist og stundum fær maður tvö ótengd krabbamein, en þá tekst maður bara á við það. Það er ekkert ósanngjarnt við að ég glími við þetta frekar en einhver annar."
"Ég tel að svona reynsla sýni okkur hvað í manni býr. Lífið er fjölbreytt og ófyrirsjáanlegt, og við verðum að takast á við þau áföll sem ber að garði. Þó ég hefði gjarnan viljað sleppa við þetta, þá hef ég lært heilmikið um sjálfa mig á þessari vegferð. Það er sannarlega ekki allt slæmt við þessa reynslu.“