Um miðjan október sóttu 6 iðjuþjálfar sem starfa í Ljósinu Evrópuráðstefnu iðjuþjálfa sem haldin var í fallegu borginni Krakow í Póllandi. Frá Íslandi fóru um 50 iðjuþjálfar en alls voru þátttakendur rúmlega 800. Umfjöllunarefni ráðstefnunnar voru mörg og lærdómurinn margvíslegur.
Iðjuþjálfar starfa í mjög fjölbreyttum störfum víðs vegar í samfélaginu en það er hvergi staður eins og Ljósið. Starfssemi Ljóssins er í fararbroddi hvað varðar alhliða endurhæfingu fyrir krabbameinsgreinda, á Íslandi, í Evrópu og þó víðar væri leitað. Ljósið er einn þeirra vinnustaða þar sem starfa hvað flestir iðjuþjálfar hérlendis og hugmyndafræði starfsseminnar hvílir að stórum hluta á hugmyndafræði iðjuþjálfunar.
Þetta þýðir að miðlægt í öllu endurhæfingarferlinu er valdefling einstaklingsins; hann stýrir sínu ferli í samráði við fagaðila og áhersla á að leita leiða til að vera virkur í daglegu lífi þrátt fyrir sjúkdóminn. Þetta er ávallt skoðað í samræmi við lífsgildi viðkomandi.
Hópurinn mættur á ráðstefnuna í Kraká
Það gefur því augaleið að ráðstefna eins og sú sem við sóttum í Kraká skiptir miklu máli fyrir starfsemi Ljóssins og okkur iðjuþjálfana sem þar starfa. Það er eflandi og gaman að fræðast um það sem verið er að skoða og rannsaka í okkar fagi, bæði með því að hlusta á lengri og styttri erindi en einnig að skoða og lesa þau fjölmörgu veggspjöld sem héngu uppi í miðrými ráðstefnuhallarinnar og skipt var út daglega. Einnig styrkjum við tengslin okkar á milli og það er gefandi að hitta íslenska kollega okkar, bæði þá sem starfa með þjónustuþegum og þá sem starfa í háskólasamfélaginu. Auk þess myndast gjarnan tengsl við erlenda kollega og þau sem fyrir voru styrkjast enn frekar.
Yfirskrift ráðstefnunnar var Future – Proofing Occupational Therapy en þetta var í fyrsta skipti sem sameinuð Evrópusamtök héldu ráðstefnu. Samtökin eru þrískipt og skiptast í COTEC – Starfandi iðjuþjálfar, ROROS - Rannsakendur og ENOTHE – Tengslanet iðjuþjálfa með framhaldsmenntun
Hlutverk iðjuþjálfa í framtíðinni verða margþættari þegar horft er til fjölgunar eldra fólks og aukins fjölbreytileika í samfélagsgerð víðast hvar. Þessi hlutverk eru:
- Frumkvöðlar - Þýðendur og kennarar - Hönnuðir - Leiðbeinendur og verkefnastjórar - Stuðningsaðilar - Talsmenn
Kraká er falleg borg og hópurinn notaði tækifærið til að skoða sig um
Við vorum hvött til að æfa okkur í að svara spurningunni “hvað gera iðjuþjálfar?” í STUTTU máli. Það er ekki nýtt fyrir okkur en alltaf gagnlegt því fagið spannar vítt svið en okkar stutta svar gæti verið að við horfum alltaf á einskaklinginn heildrænt og í samspili við umhverfið sem hann lifir og hrærist í og notum valdeflandi nálgun.
Hér verður stiklað á stóru og veitt innsýn inn í það sem rannsakendur hafa skoðað og miðluðu á ráðstefnunni, bæði það sem staðfestir gildi þess sem við í Ljósinu erum að gera nú þegar og við viljum halda áfram að gera en einnig það sem er í þróun og við viljum fylgjast áfram með og meta hvað við viljum innleiða í endurhæfingunni hjá okkur.
Við kinkuðum oft kolli þegar hlustað var á erindi rannsakenda sem lýstu eftir enn frekari rannsóknum á málefninu þegar vísbendingarnar voru það góðar um gagnsemi íhlutunar. Margt af þeirri íhlutun er nefnilega nú þegar boðið upp á í Ljósinu. Sem dæmi má nefna rannsókn um 8 skipta slökunarprógram sem iðjuþjálfi hafði sett upp. Önnur rannsókn með áherslu á undirbúning fyrir atvinnuþátttöku t.d. hve gagnlegt það væri að nýta handverk, garðvinnu og að vera úti í náttúrunni sem lið í endurhæfingunni.
Bent var á mikilvægi þess að styðja þjónustuþega í að yfirfæra það sem þeir læra eða þjálfa upp í endurhæfingunni yfir í sitt eigið umhverfi og aðstæður. Í Ljósinu hefur frá upphafi verið boðið upp á tíma í jóga og slökun og staðfesta frásagnir ljósbera okkar gagnsemi þess. Í viðtölum erum við alltaf að skoða með þeim hvað af úrræðum okkar styðji við þau í bataferlinu svo þau geti sinnt því sem skiptir þau máli í sínu nærumhverfi með sínu fólki, í sinni vinnu eða námi. Ekki síst er það gagnlegt þegar fólk er í veikindaleyfi og ekki virkt á sama hátt í samfélaginu, hvaða athafnir skipta mestu máli að geta sinnt sjálfur, hvað má víkja um sinn og hvað er hægt að fá aðra til að sjá um tímabundið.
Handverk er einmitt ríkur þáttur í endurhæfingunni í Ljósinu og daglega tjá ljósberar sig um hvað þátttaka í slíku sé eflandi og nærandi á margan hátt.
Námskeið tengt þreytu
Þreytan er það fyrirbæri sem er mikil áskorun flestra þeirra sem greinast með krabbamein og ýmsir rannsakendur eru uppteknir af. Eitt af því sem við munum fylgjast vel með á næstunni eru áform um þýðingu PMFP yfir á íslensku (Packer Managing Fatigue Program) Hvað er það? Um er að ræða 6 vikna gagnreynt prógram þar sem íhlutun er leidd af iðjuþjálfa og gagnast þeim sem takast á við mikla þreytu í kjölfar veikinda. Byggt er á gögnum yfir 20 ára tímabil og hefur sýnt sig að sú íhlutun hefur jákvæð áhrif til að lágmarka áhrif þreytunnar á daglegt líf og styðja við aukna möguleika á þátttöku í daglegu lífi. Að loknu prógrammi hefur mælst aukin vellíðan, aukin lífsgæði og aukin trú á eigin áhrifamátt. Prógrammið er hægt að nýta með einstaklingi, í hóp, á netinu eða á staðnum. Það hefur nú þegar verið þýtt og staðfært á nokkur tungumál. Kjarninn í prógramminu er að skipuleggja athafnir sínar en einnig hvenær skuli hvíla sig. Þreyta og fjölþætt úrræði við henni eru daglegt viðfangsefni fagaðila í Ljósinu, í viðtölum, á námskeiðum, í líkamlegum æfingatímum, í jafningjahópum og í handverkstímum en við tökum fagnandi fleiri gagnreyndum aðferðum í okkar starfssemi.
Fjölbreyttar birtingamyndir kalla á fjölbreyttari íhlutun og úrræði.
Fjölbreytileiki samfélaga
Mjög víða heldur samfélagsgerðin áfram að breytast, verða margþættari og því fylgja áskoranir fyrir iðjuþjálfa. Hvað er sjálfsögð iðja, dagleg verkefni? Fjölbreyttar birtingamyndir kalla á fjölbreyttari íhlutun og úrræði.
Iðjuþjálfar styðja fólk til að lifa lífi samkvæmt sínum eigin gildum og að skilgreina hvað mestu máli skiptir. Þetta er flókið í samfélagi aukins fjölbreytileika en jafnframt skemmtilegt og auðgandi fyrir fagaðila að móta úrræði sem eru gagnleg fyrir ólíka hópa.
Í Ljósinu er ekki langt síðan að ljóst var að mæta þyrfti stækkandi hópi sem er enskumælandi fyrst og fremst. Vikulega hittist því jafningjahópur, Peer group og borðar saman í hádeginu. Jafnvel þeir sem hvorki tala íslensku né ensku finna stuðning í þessum hópi. Ljósberum sem þurfa túlk í viðtölum fer einnig fjölgandi.
Áskoranir sem mæta iðjuþjálfum víða í Evrópu eru einnig margskonar á sviði félagslegra réttinda og kallar það á auknar áherslu á sviði forvarna og “prehabilitation”. Nefnd voru dæmi sem kalla á nýsköpun í aðkomu fagaðila:
• Skjólstæðingar búa við bágbornar aðstæður sem þau geta hvorki breytt né flutt frá
• Alzheimer tilfellum fjölgar
• Fátækt eykst
• Offita hefur aukist mikið í 44 löndum og mun aukast
• Áhrif loftslagsbreytinga
Víða er lögð aukin áhersla á að efla hvers konar þjónustu í heilsugæslunni, sem næst heimili fólks (Primary care). Rætt var um gildi þess að styðja við endurhæfinguna með því að fara heim til fólks og eiga samstarf með skjólstæðingi þar ásamt aðstandendum, heimahjúkrun, félagsþjónustu og öðrum þeim sem fólk þarf að reiða sig á í bataferlinu. Fólk sem sinnir heimilisþrifum getur verið lykilpersónur í að grípa nógu snemma inn í ferli þegar þjónustuþega hrakar hægt. Þau taka eftir litlu breytingunum hjá fólki en þurfa að hafa vettvang þar sem tekið er mark á frásögn þeirra og þannig sé tryggt að strax sé brugðist við til að fyrirbyggja frekari færniskerðingu t.d. með því að setja inn viðbótarstuðning á heimilið.
Að tilheyra
Hugtakið “belonging” eða það að tilheyra heyrðist reglulega í erindum á þessari Evrópuráðstefnu. Það er greinilegt að með aukinni athygli á einmanaleika og skaðlegum heilsufarslegum áhrifum hans hefur þetta hugtak verið meira í umræðunni. Bæði voru erindi þar sem lýst var verkefnum þar sem iðja var notuð til að tengja fólk saman og gefa því tilfinningu af því að tilheyra samfélagi en einnig voru rannsóknir þar sem augum var beint sérstaklega að heilusamlegum áhrifum þess að tilheyra. Einnig var vakin athygli á því að fyrir suma er mikilvægt að eiga stað sem sérstaklega tilheyrir “mér” svo sem eins og handverkerkshorn, lestrarstól og jóga- og hugleiðslusvæði. Að eiga sér slíkt pláss eykur virkni og velíðan.
50 íslenskir iðjuþjálfar tóku átt á ráðstefnunni
Siðferðileg álitamál
Fjallað var nokkuð um siðferðileg álitamál sem hluta af starfi iðjuþjálfa, sem vissulega er ekki nýtt en tekur kannski á sig nýjar myndir. Eru iðjuþjálfar tilbúnir að styðja skjólstæðinga í að vinna að aukinni færni algjörlega óháð eðli athafnarinnar sem viðkomandi vill ná valdi á að nýju? Hvað ef iðjan/athöfnin er ólögleg?
Gervigreindin
Gervigreindin er ekki bara framtíðin, hún er nútíðin og vert að horfa til hvernig hún getur nýst okkur í starfi og þannig í endurhæfingunni. Nú þegar sjá kennarar í iðjuþjálfun sér hag í að nýta gervigreindina t.d. þegar semja þarf texta fyrir nemendur, frásögn af skjólstæðingi og aðstæðum hans sem kallar á íhlutun iðjuþálfa. Kennarinn þarf aðeins að setja inn fáein lykilhugtök sem eru lýsandi fyrir viðkomandi og hókus pókus! gervigreindin er enga stund að koma upp með skýra sögu/case sem nemandinn síðan vinnur verkefni útfrá. Mikill tímasparnaður þarna.
Annað dæmi er um forritið DIY (do it your self model) þegar þjálfa þarf upp færni við eldamennsku eða önnur heimilisverk. Þá getur gervigreindin hjálpað til við að setja verkefnið upp í þrepum, bæði skriflegum og upplesnum leiðbeiningum sem birtast með fyrirfram skilgreindum hætti. Rætt var um persónuverndarsjónarmið þessu tengt.
Nemar
Ein af íslensku rannsóknunum sem kynntar voru, var rannsókn unnin af Hólmdísi Freyju og Huldu Þóreyju, iðjuþjálfum, og fjallaði um viðhorf leiðbeinanda á vinnustöðum í verknámi.
Þær fjölluðu um gildi þess fyrir vinnustaði að taka nema, þær hindranir sem leiðbeinendur tilgreindu en einnig mikilvægi þess að yfirmenn og aðrir finni til ábyrgðar með því að skapa skilyrði á vinnustað og taka þátt í menntun iðjuþjálfa. Þetta rímar vel við að Ljósið velur að taka nema í iðjuþjálfun. Okkur hefur þótt áskorun að geta ekki boðið nemum ákveðið rými til úrvinnslu í næði en í góðu samstarfi við háskólann á Akureyri hefur verið skilgreint hvaða verknámsþættir og tímabil henta best bæði nemum og okkar vinnustað. Það er gagnkvæm ánægja með núverandi fyrirkomulag.
Notkun sýndarveruleika í námi iðjuþjálfa var til umfjöllunar og spurt hvort nemendur geti þannig verið enn betur undirbúnir fyrir störf sem iðjuþjálfar. Nemar fá þá endurgjöf frá samnemendum sem hafa fylgst með gjörðum þeirra/íhlutun hinu megin við spegilvegg.
Aftur til vinnu eða náms
Margir þurfa að vera lengi í veikindaleyfi frá vinnu eða námi og er því stór hópur þeirra sem við í Ljósinu vinnum með. Eitt af námskeiðum í Ljósinu heitir Aftur til vinnu eða náms. Á ráðstefnunni var fjallað um að enginn einn aðili sé ábyrgur fyrir samhæfingu eða með yfirsýn yfir málefni einstaklings sem er á leið til vinnu eða náms eftir veikindaleyfi. Iðjuþjálfar voru hvattir til að leiða slíkt ferli með fólki, vera samhæfingaraðili. Iðjuþjálfar í Ljósinu styðja ljósbera til að hafa yfirsýnina með því t.d. að tryggja að þeir eigi samvinnu við félagsráðgjafa á LSH þegar vinna þarf umsókn um endurhæfingarlífeyri frá Tryggingastofnun auk þess sem iðjuþjálfarnir skrifa endurhæfingaráætlun með ljósberanum sem er send til TR og uppfærð þegar sækja þarf um endurnýjun á þessum lífeyri. Iðjuþjálfar hvetja einnig til að vera í góðum tengslum við vinnustaðinn sinn eða skólann í öllu ferlinu.
Lokaræðu ráðstefnunnar flutti ung kona sem smám saman missti hreyfifærni og er í dag háð hjólastól. Boðskapur hennar til fagfólks er að göfugasti tilgangur okkar sé að aðstoða einstaklinginn við að efla sinn innri styrk til að geta tekist á við þær áskoranir sem fylgja færniskerðingu hvernig svo sem hún birtist í daglegu lífi. Hún varpaði skýru ljósi á fjölbreytta möguleika til þátttöku í lífinu þrátt fyrir fötlun eða færniskerðingu hvers konar. Hún skerpti einnig á því sem við í Ljósinu viljum ávallt vera meðvituð um en það eru mörkin á milli þess að valdefla einstaklinginn og veita beina hjálp.
Þegar heim er komið er gaman að rifja upp þá fræðslu sem miðlað var á ráðstefnunni og líta yfir það fjölbreytta framboð sem í boði er í endurhæfingunni í Ljósinu. Það er gott að sjá samhljóminn þarna á milli en um leið að sjá tækifæri til vaxtar í þjónustu við okkar þjónustuþega.