Ljósablaðið

1. TBL. 19. ÁRG 2025

Árið að baki í Ljósinu 2025

Höfundar

Regína Björk Jónsdóttir

Eva Guðrún Kristjánsdóttir

Ljósmyndari

Ýmsir

Ljósið fagnaði 20 ára afmæli í ár og það er virkilega skemmtilegt að renna í gegnum augnablikin stór sem smá sem við höfum átt með fólkinu okkar. Augnablikin eru mörg og dýrmæt í Ljósinu á degi hverjum en hér stiklum við á stóru.

Fyrsti mánuður ársins þaut hjá með ógnarhraða og rútínan náði takti. Á Alþjóðlegum degi gegn krabbameini, þann 4. febrúar, var merki Ljóssins fært í afmælisbúning í tilefni 20 ára afmæli Ljóssins. Hvíta Húsið vann afmælisútgáfuna og má sjá fallegu logana mynda töluna 20 í tilefni afmælisársins.

Fjáröflunarkvöldverður Ljóssins fór fram í febrúar þar sem sem safnað var fyrir nýju húsnæði og einkenndist kvöldið af hlýju og samhug ásamt frábærum tónlistaratriðum og ljúffengum mat.

Öskudagurinn er alltaf tekin hátíðlega á Langholtsveginum og mættu bæði starfsfólk og þjónustuþegar sem allskyns furðuverur þann dag.

Að venju er nóg um að vera í Ljósinu. Líkamlega endurhæfingin var á sínum stað, fróðlegir fyrirlestrar og ekki má gleyma sófaspjalli yfir heitum bolla.

Í ár framleiddum við okkar eigin kerti til að lýsa upp myrkrið. Kertin eru uppáhelt í Ljósinu og eru skreytt broti úr ljóði Siggu Soffíu:

"Síðasta vetur var ég neydd til að horfa inn í myrkrið og mér til undrunar sá ég stjörnur."

Í tilefni af 20 ára afmæli Ljóssinsfékk Margrét Frímannsdóttir heiðursnafnbótina að vera verndari Ljóssins. Margrét hefur fylgt Ljósinu eftir allt frá grasrótinni, bæði í endurhæfingu en einnig sem fyrsti formaður stjórnar hjá Ljósinu. Við látum nú sjaldan tækifæri frá okkur fara að fá okkur köku og gleðjast og á því var engin undantekning í maí þegar við buðum í afmæliskaffi og heiðruðum Margréti af því tilefni.

Árlega fjölskylduganga Ljóssins fór fram í júní. Að göngu lokinni var boðið upp á andlitsmálun og létta hressingu.

Stór hluti af endurhæfingu Ljóssins er í gegnum handverk og hefur það verið frá upphafi. Við erum vön að segja að listin hafi lækningarmátt og höfum við svo sannarlega séð það gerast hérna. Handverkið er fjölbreytt, litríkt og skemmtilegt að venju.

Í júlí fór samstarfsverkefni Nettó og Ljóssins af stað í þriðja sinn. Í ár var það hönnun Steingríms Gauta sem skreytti fallegar slæður og veglega taupoka. Virkilega ánægjulegt og fallegt samstarf við Nettó.

Reykjavíkurmaraþonið var á sínum stað í ágúst og í ár þegar fjöldinn allur af duglegum einstaklingum og hópum hlupu fyrir Ljósið var slegið met í áheitum og söfnun! Við mættum galvösk til leiks á Fit&Run og stilltum svo að sjálfsögðu upp flottustu klappstöðinni í maraþoninu til að hvetja áfram okkar bestu hlaupara.

Vá hvað þið eruð frábær öll sem eitt og við þakklát fyrir bestu hlauparana og klappstýrurnar.

Í tilefni 20 ára afmælis Ljóssins buðum við upp á fjölbreytta "pop-up" tíma og fyrirlestra. Þjónustuþegar fengu meðal annars tækifæri til að læra Tai Chi og fræðast um augnheilsu og áhrif lyfja, mikilvægi svefns og næringar í krabbameinsmeðferð og margt fleira.

Í september héldum við áfram upp á afmælið okkar og eins og öll afmælisbörn þá buðum við upp á köku og fögnuðum saman. Það var líf og fjör í húsinu og greinilegt að gestum þótti mjög vænt um afmælisbarnið.

Afmælistónleikar Ljóssins fóru fram þann 20.september en þar héldum við áfram að safna fyrir nýju húsnæði Ljóssins. Myndirnar hér að neðan fanga einstaka stemningu kvöldsinsog ekki annað að sjá en að gestir hafi skemmt sér konunglega.

Um miðjan september fór fram styrktarleikur fyrir Ljósið. Þá mættust Breiðablik og ÍBV en með samstarfinu vildu Ljósið og Blikar vekja athygli á starfi ungra karlmanna í Ljósinu.

Þann 27. október, á alþjóðlegum degi iðjuþjálfunar bauð Ljósið þjóðinni í opið hús! Þar kynntu iðjuþjálfar Ljóssins meðal annars jafnvægi á milli vinnu, tómstunda og hvíldar í daglegu lífi. Ráðleggingar varðandi rétta líkamsbeitingu, skipulagningu, orkusparandi aðferðir, hlutverk aðstandenda í veikindum og ýmis konar handverk. Fjölmargir kíktu í heimsókn og fengu innsýn í starf iðjuþjálfa og reyndu ólík bjargráð á eigin skinni.

Það var metmæting þegar 900 manns tóku þátt í að lýsa upp Esjuna með okkur í ár. Við erum svo ótrúlega þakklát fyrir þennan frábæra stuðning og þessi dagur var í einu orði sagt frábær!

Stuðningur einstaklinga og félaga við starfsemi Ljóssins skiptir gríðarlegu máli.

Við reynum eftir fremsta megni að smella af þegar einstaklingar og fyrirtæki koma til okkar. Hér má sjá brot af þeim myndum sem við höfum náð að smella af það sem af er ári. Máttur samfélagsins er ómetanlegur og skiptir sannarlega sköpun fyrir þau sem greinast með krabbamein.