Endurhæfing er samkvæmt íslenskum lögum og opinberum stefnum markvisst, tímabundið ferli sem miðar að því að endurheimta eða efla færni einstaklings til þátttöku í samfélaginu eftir veikindi, slys eða skerðingu.
Með þessum skrifum viljum við varpa ljósi á sérhæfingu Ljóssins og þá heildrænu endurhæfingu sem einkennir starfið.
Við stofnun Ljóssins fyrir 20 árum var lagður grunnur að hugmyndafræði sem byggist á fagþekkingu iðjuþjálfa – þar sem horft er til samspils einstaklings, iðju hans og umhverfis og hvernig efla megi einstaklinginn í sínu daglega lífi. Með árunum hefur starfsemin vaxið mjög, þjónustuþegum fjölgað og sömuleiðis fagstéttum. Með fleiri fagstéttum hefur starfsemin orðið enn heildrænni – alltaf með það að leiðarljósi að styðja og efla fólk í því erfiða verkefni sem krabbameinsgreining og meðferð er.
Þegar komið er í Ljósið er greinilegt að ekki er litið á endurhæfinguna sem eingöngu læknisfræðilegt ferli heldur er lögð áhersla á að virkja einstaklinginn sjálfan og styrkja hann og efla sem virkan þátttakanda í eigin bataferli.
Umhverfið er heimilislegt og skipulagt á þann veg að það ýtir undir félagleg tengsl og vellíðan. Jafningjastuðningur og skapandi iðja eru jafn mikilvægir þættir og líkamleg þjálfun. Allir þessir þættir draga úr einangrun og auka sálræna vellíðan, sem samkvæmt rannsóknum hefur bein áhrif á bata og virkni.
Þjónustan er veitt af þverfaglegu teymi – þar á meðal iðjuþjálfum, sjúkraþjálfurum, íþrótta- og næringarfræðingum, sálfræðingum, markþjálfum, heilsunuddurum, fjölskyldufræðingum og fleirum. Þessi fjölbreytti hópur fagaðila hefur víðtæka sérþekkingu og saman hefur okkur tekist að bjóða fjölbreytta endurhæfingu sem eflir líkamlega, andlega og félagslega heilsu. Við leggjum okkur fram við að mæta hverjum og einum þar sem hann er staddur.
Í samvinnu við þjónustuþega setja fagaðilar upp skipulagða endurhæfingardagskrá sem tekur mið af færni hans, þörfum og áhugasviði og unnið er með þau markmið sem skipta einstaklinginn mestu máli. Í Ljósinu leggjum við áherslu á að efla og fræða. Við hjálpum fólki að draga fram og læra ný bjargráð í krefjandi aðstæðum og veitum þeim tækifæri til að efla sig líkamlega, andlega og félagslega.




























