Ljósablaðið

1. TBL. 19. ÁRG 2025

Guðný, Erla, Þórhildur og Stefán

Heildræn endurhæfing – sérhæfing Ljóssins

Höfundar

Guðný Katrín Einarsdóttir

Erla Ólafsdóttir

Þórhildur Sveinsdóttir

Stefán Diego

Ljósmyndari

Hulda Margrét

Ljósið leggur áherslu á heildræna endurhæfingu og þá er gott að horfa til heilsuhjóls Hubers en þar er lögð áhersla á að mæta líkamlegum, andlegum og félagslegum áskorunum í lífinu.

Endurhæfing er samkvæmt íslenskum lögum og opinberum stefnum markvisst, tímabundið ferli sem miðar að því að endurheimta eða efla færni einstaklings til þátttöku í samfélaginu eftir veikindi, slys eða skerðingu.

Með þessum skrifum viljum við varpa ljósi á sérhæfingu Ljóssins og þá heildrænu endurhæfingu sem einkennir starfið.

Við stofnun Ljóssins fyrir 20 árum var lagður grunnur að hugmyndafræði sem byggist á fagþekkingu iðjuþjálfa – þar sem horft er til samspils einstaklings, iðju hans og umhverfis og hvernig efla megi einstaklinginn í sínu daglega lífi. Með árunum hefur starfsemin vaxið mjög, þjónustuþegum fjölgað og sömuleiðis fagstéttum. Með fleiri fagstéttum hefur starfsemin orðið enn heildrænni – alltaf með það að leiðarljósi að styðja og efla fólk í því erfiða verkefni sem krabbameinsgreining og meðferð er.

Þegar komið er í Ljósið er greinilegt að ekki er litið á endurhæfinguna sem eingöngu læknisfræðilegt ferli heldur er lögð áhersla á að virkja einstaklinginn sjálfan og styrkja hann og efla sem virkan þátttakanda í eigin bataferli.

Umhverfið er heimilislegt og skipulagt á þann veg að það ýtir undir félagleg tengsl og vellíðan. Jafningjastuðningur og skapandi iðja eru jafn mikilvægir þættir og líkamleg þjálfun. Allir þessir þættir draga úr einangrun og auka sálræna vellíðan, sem samkvæmt rannsóknum hefur bein áhrif á bata og virkni.

Þjónustan er veitt af þverfaglegu teymi – þar á meðal iðjuþjálfum, sjúkraþjálfurum, íþrótta- og næringarfræðingum, sálfræðingum, markþjálfum, heilsunuddurum, fjölskyldufræðingum og fleirum. Þessi fjölbreytti hópur fagaðila hefur víðtæka sérþekkingu og saman hefur okkur tekist að bjóða fjölbreytta endurhæfingu sem eflir líkamlega, andlega og félagslega heilsu. Við leggjum okkur fram við að mæta hverjum og einum þar sem hann er staddur.

Í samvinnu við þjónustuþega setja fagaðilar upp skipulagða endurhæfingardagskrá sem tekur mið af færni hans, þörfum og áhugasviði og unnið er með þau markmið sem skipta einstaklinginn mestu máli. Í Ljósinu leggjum við áherslu á að efla og fræða. Við hjálpum fólki að draga fram og læra ný bjargráð í krefjandi aðstæðum og veitum þeim tækifæri til að efla sig líkamlega, andlega og félagslega.

Heilsuhjól Huber

Til að skýra betur hvað átt er við með heildrænni endurhæfingu getur verið gagnlegt að horfa á heilsuhjólið en það er líkan sem þróað var af hollenska lækninum Machteld Huber.

Með heilsuhjólinu er heilbrigði skilgreint sem getan til að aðlagast og taka stjórn á eigin heilsu þegar við mætum líkamlegum, andlegum og félagslegum áskorunum í lífinu.
Líkan Hubers skilgreinir sex svið heilsu: Líkamlega virkni, andlega vellíðan, tilgang, lífsgæði, daglega virkni og þátttöku. Þetta líkan sýnir heilsu sem margþætt og lifandi ferli, sem er samspil margra þátta.

Heilsuhjól Huber

Það sameinar marga þætti lífsins í eina sjónræna heild og leggur áherslu á jafnvægi fremur en fullkomnun. Heilsa er síbreytileg og mótast af innri og ytri aðstæðum og því er markmiðið ekki fullkomnun á öllum sviðum heldur að finna jafnvægi sem hentar hverjum einstaklingi. Þetta persónulega jafnvægi er kallað jákvæð heilsa og snýst um hæfni manneskjunnar til að aðlagast, finna bjargráð og stjórna eigin vegferð í gegnum líkamlegar, andlegar og félagslegar áskoranir. Nálgunin snýst um þrautseigju og það að vera sjálfur við stjórnvölinn. Markmið heilsuhjólsins er að gefa heildræna mynd á líðan einstaklings og gera hann meðvitaðan um hvaða þættir eru í jafnvægi og hvaða þættir þurfa frekari athygli. Þegar einstaklingur setur sér markmið á einu sviði heilsuhjólsins t.d. að auka líkamlega virkni, mun það einnig að öllum líkindum bæta líðan hans á öðrum sviðum heilsu, t.d. auka þátttöku og bæta andlega líðan.

Það er mikill samhljómur milli hugmyndafræði Ljóssins, nálgunar heilsuhjólsins og jákvæðrar heilsu. Heilsa er ekki einungis mæld í tölum eða prófum heldur í líðan, virkni og þátttöku. Endurhæfingin í Ljósinu miðar að því að auka hæfni manneskjunnar til að aðlagast, finna bjargráð og stjórna eigin vegferð í gegnum þær fjölmörgu áskoranir sem fylgja krabbameinsmeðferð.

Ef við mátum þjónustuþætti Ljóssins inn í heilsuhjólið sést vel hversu heildræn og víðtæk þjónustan er:

Í Ljósinu er margt sem eflir líkamlega virkni. Sjúkraþjálfarar og íþróttafræðingar veita faglega ráðgjöf, fræðslu, aðhald og eftirfylgd.

Í líkamlegri endurhæfingu er lögð áhersla á að koma í veg fyrir skaða af völdum krabbameinsmeðferða. Á meðan á meðferð stendur er mikilvægt að stunda daglega hreyfingu innan þeirra marka sem hver og einn getur og þannig lágmarka skerðingu á líkamlegri færni og skaða á heilbrigðum vefjum líkamans. Liður í því er sérhæfð sogæðameðferð hjá sjúkraþjálfara.

Markmið endurhæfingarinnar er að auka líkamlega getu og vellíðan, ásamt því að byggja upp þol og styrk eftir veikindi og meðferð. Stefnt er að því að skapa góðar hreyfivenjur sem einstaklingurinn getur viðhaldið eftir að endurhæfingu í Ljósinu lýkur.

Mikil áhersla er á að fólk viðhaldi daglegri virkni. Í viðtölum við iðjuþjálfa er farið yfir ýmsa þætti daglegs lífs, rætt um jafnvægi í daglegri iðju, aðlögun og hvernig setja megi upp heppilegt dagskipulag. Þegar líður á endurhæfinguna er hugað að þeim skrefum sem taka þarf til að snúa aftur á vinnumarkað eða í aðra virkni sem viðheldur heilsu og gefur tilgang og ánægju. Í þeim tilgangi erum við með sérhæfð námskeið; Aftur til vinnu eða náms og Tímamót – ný hlutverk. Einnig er hægt að fara í einkaviðtöl hjá markþjálfum Ljóssins.

Í Ljósinu er unnið að því að auka andlega vellíðan og efla þrautseigju m.a. með viðtölum við sálfræðinga og iðjuþjálfa. Andleg heilsa og bjargráð eru til umfjöllunar á fjölmörgum námskeiðum. Boðið er upp á núvitundarnámskeið, slökun, snyrtimeðferðir og nudd. Markmiðið er að aðstoða einstaklinga við að takast á við andlegt álag tengt krabbameinsgreiningu og meðferð, efla skilning og draga fram ný bjargráð í óþekktum aðstæðum.

Þátttaka og virkni ýta undir vellíðan og bætir heilsu. Mikilvægt er að finna tilgang, að tilheyra og vera virkur þátttakandi. Í Ljósinu myndast samfélag jafningja sem deilir sammannlegri reynslu og er það ómetanlegur stuðningur í erfiðum aðstæðum. Í opnu og hlýlegu rými hittist fólk, spjallar saman yfir hádegismat og kaffibolla, tekur þátt í skapandi verkefnum og finnur samstöðu. Þrátt fyrir að í kjölfar krabbameinsgreiningar geti komið krefjandi tímar er andrúmsloftið í Ljósinu létt og það er stutt í húmor, hlátur og gleði.

Frá upphafi hefur handverk verið mikilvægur þáttur í starfsemi Ljóssins og ekki að ástæðulausu. Fólk gleymir sér við ánægjulega sköpun, finnur slökun, er hluti af hópi, upplifir sigra þegar það lýkur við fallegan handunninn hlut, æfir úthald og fínhreyfingar svo fátt eitt sé nefnt. Í handverkinu gerast töfrar og sköpunargleðin er heilandi kraftur. Þjónustukönnun sem gerð er reglulega í Ljósinu sýnir okkur að þessi hluti endurhæfingarinnar er fólki mjög mikilvægur.

Í Ljósinu eru einnig starfandi skipulagðir jafningjahópar sem hittast reglulega. Hér má nefna hópa bæði fyrir ungar konur og yngri karlmenn, strákamatinn fyrir eldri karlmenn og jafningjahóp fyrir fólk með langvinnt krabbamein. Markmið þessara hópa er að rjúfa einangrun, efla tengsl og jafningjastuðning, og styðja þannig undir bataferlið.

Alvarleg veikindi snerta alla aðstandendur og því nær heildræn endurhæfing einnig til aðstandenda á öllum aldri og í Ljósinu geta þeir sótt bæði stuðning og fræðslu.

Öll þessi þjónusta eflir heilsu og stuðlar að betri lífsgæðum.

Lokaorð

Segja má að endurhæfingin í Ljósinu sé dæmi um íslenskt heilsuhjól í framkvæmd, þar sem líkamleg, andleg og félagsleg endurhæfing myndar eina heild. Þessi sýn tengist hugmyndafræði Ljóssins og er nátengd hugtakinu jákvæð heilsa. Þar er heilsa ekki mæld í tölum eða prófum heldur áhersla lögð á manneskjuna sjálfa, styrkleika hennar og möguleika til að aðlagast og ná jafnvægi í lífinu eftir áföll og veikindi. Með því að beina sjónum að öllum þáttum heilsu, verður endurhæfingin innihaldsríkari, mannlegri og árangursríkari. Ljósið hefur á undanförnum árum orðið ljósgjafi, í orðsins fyllstu merkingu, fyrir fólk sem hefur greinst með krabbamein og aðstandendur þeirra.

Ítarefni um heilsuhjólið og jákvæða heilsu:
https://www.virk.is/is/um-virk/upplysingar/frettir/heilsuhjol-heilbrigdara-lifs
https://www.laeknabladid.is/tolublod/2020/01/nr/7231

Heilsuhjól til útprentunar:
https://throunarmidstod.is/library/Files/Heilsueflandi-thjonusta/Heilsuhjo%cc%81l_2020.pdf