Ekki spjall um krabbamein
Starfsemi hópsins snýst því ekki bara um veikindin heldur að skapa vettvang þar sem er gaman að vera.
„Við leyfum krökkum að vera áfram þó þau séu ekki lengur með krabbamein, ef þau tilheyra enn þessum aldurshópi og hafa gagn af hópnum. Það er mjög gott því þá eru þeir sem eru að byrja í meðferð að tala við fólk sem er búið í meðferð. En eru samt jafningjar. Eru með svipaða reynslu af hlutunum og miðla í báðar áttir sem þau hafa engan annan vettvang í,“ segir Kristín.
„Við finnum hvað þetta skiptir ótrúlega miklu fyrir þá sem eru í meðferð, að geta talað við þá sem eru búnir.“
Kristín vísar í sögu Veru Helgadóttur, sem hún deilir sjálf í Ljósablaðinu, og segir hana hafa verið mikilvæga fyrirmynd fyrir yngri stúlkur.
„Hún fékk þau skilaboð frá Livio að hún gæti ekki orðið ólétt aftur en svo eignast hún barn í lok meðferðar. Þú getur rétt ímyndað þér hversu mikla von þetta veitir yngri stelpunum í hópnum,“ segir Kristín og bætir við: „Þær eru kannski á þeim stað að halda að lífið sé búið, þær missi af öllu og nái aldrei að upplifa það sem bíður fullorðinsáranna. Svo mætir ein þeirra stundum með ungbarnið sitt, barn sem hún átti ekki að geta eignast.“
„Það skiptir ótrúlega miklu fyrir hópinn sem er í virkri meðferð að hitta annað ungt fólk sem hefur lokið meðferð (þó að það sé langoftast enn í eftirliti). Þau eiga enn erindi í hópinn og hafa mikið fram að færa.“
Þær benda þó á að það skipti líka máli að skapa vettvang sem þau vilja mæta í.
„Ef við værum eitthvað: Hey, viljiði koma og tala um krabbamein í klukkutíma? Þá myndi enginn mæta,“ segir Kristín og hlær. Hópurinn gerir því ýmislegt skemmtilegt, til dæmis hefur verið farið á kaffihús, sund, keilu, dekur, piparkökuhús skreytt fyrir jólin auk ýmis konar skapandi verkefna.
„Við erum bara að búa til vettvang sem er í alvöru aðlaðandi, þar sem þau geta hist. Svo eru þau samt nánast allan tímann að tengjast og tala um krabbameinið,“ bætir Kristín við og leggur áherslu á að þörfin fyrir úrvinnslu og tjáningu mikil þegar þau loksins hittast.