Ljósablaðið

1. TBL. 19. ÁRG 2025

„Eins og úr hryllingsmynd“ – Greindist 15 ára og horfir nú fram á nýtt ævintýri

Höfundur

Rósa Margrét Tryggvadóttir

Ljósmyndari

Hulda Margrét

Eiríkur Stefánsson fór á skömmum tíma frá því að vera efnilegur knattspyrnumaður í úrtakshópi landsliðsins yfir í að vera veikasti sjúklingurinn á gjörgæslu. Hann hefur sigrast á hvítblæði, bráðabrisbólgu og erfiðri dvöl í öndunarvél, en segir erfiðustu glímuna hafa verið andlega; að detta úr takti við jafnaldrana og upplifa það að vera eftir á meðan lífið hélt áfram. Hér segir hann sögu sína og hvernig jafningjahópur í Ljósinu varð honum líflína til baka.

Þann 24. febrúar 2022 breyttist allt í lífi Eiríks Stefánssonar. Sama dag og fréttir bárust af innrás Rússa í Úkraínu hófst önnur og persónulegri barátta hjá þessum 15 ára gamla dreng. Hann var í 10. bekk, á fullu í fótbolta og hafði unnið sér sæti í æfingahópi U16 landsliðsins. Ekkert benti til þess að hann væri að verða alvarlega veikur, annað en dularfullt úthaldsleysi.

„Ég fann í janúar á æfingum að þolið var orðið mun minna,“ segir Eiríkur. „Mér fannst það skrítið því hinir strákarnir voru léttir á því en ég var alveg á öndinni.“

Eftir veikindi sem voru ranglega talin vera Covid eða eftirköst þess, fékk hann loks rétta greiningu: Hvítblæði. Það tók Eirík nokkurn tíma að meðtaka alvarleikann. „Mér datt ekki í hug að þetta væri krabbamein, heldur bara einhver tímabundin veikindi. Ég hélt að þetta væri bara einhver vægur sjúkdómur sem auðvelt væri að meðhöndla,“ segir hann. Veruleikinn var hins vegar annar og við tók langt og strangt ferli.

Eiríkur var 15 ára þegar hann greindist með hvítblæði

Eins og martröð

Meðferðin við hvítblæði er ströng og Eiríkur fór strax í lyfjagjöf. Það kom þó á óvart að það var ekki krabbameinið sjálft sem ógnaði lífi hans mest á þessum tíma, heldur heiftarlegar aukaverkanir lyfjanna. Í júlí 2022 fékk hann bráða brisbólgu með drepi sem rakin var til ákveðins krabbameinslyfs.

„Það var það erfiðasta við allt ferlið,“ segir Eiríkur og lýsir atburðarás sem minnir á martröð. Hann fékk fjöllíffærabilun, æðakerfið gaf sig og vökvi safnaðist fyrir í lungum. Eftir eina af mörgum svæfingum reyndist erfitt að vekja hann vegna öndunarörðugleika og því var ákveðið að halda honum sofandi í öndunarvél í rúmlega tvær vikur. Ástandið var tvísýnt um tíma og lá Eiríkur inni á gjörgæslu í 30 daga. Foreldrar hans véku ekki frá honum allan þennan tíma og sváfu þau til skiptis í stól við hlið hans.

Sumarið situr eftir í brotakenndum myndbrotum. Þrátt fyrir að muna lítið eftir gjörgæslulegunni situr þó ein minning föst í honum: Barkaskurðurinn sem gerður var til að tryggja að hann gæti andað. „Ég man eftir því að ég þurfti að hósta til að ná einhverju slími úr opnum hálsinum. Þetta var ógeðslegt,“ segir Eiríkur sem viðurkennir að hann eigi enn erfitt með að skoða myndir frá þessum tíma.

Vegna aðgerðarinnar gat hann ekki talað og reyndi því að tjá sig með því að skrifa á blað. Það reyndist þó töluverð áskorun. „Ég sá ofsjónir,“ rifjar hann upp. Hann lýsir því hvernig hann hélt að hjúkrunarfræðingur inni á stofunni væri einhvers konar skrímsli. Hann bendir á að hann eigi enn myndir af blöðunum í dag en getur lítið lesið úr þeim. „Það stóð bara eitthvað rugl á þeim. Þetta var bara eins og úr einhverri hryllingsmynd.“

„Mér var síðar sagt að ég hefði verið veikasti sjúklingurinn á gjörgæslunni á þessum tíma,“ segir Eiríkur.

Eiríkur þurfti að læra að sitja og ganga upp á nýtt.

Skíthræddur á 16 ára afmælisdaginn

Þann 29. ágúst átti Eiríkur 16 ára afmæli en var þá á sínu versta tímabili. Í góðri trú var ákveðið að setja upp afmælisskraut í herberginu hans til að reyna að gleðja hann, en ástandið bauð ekki upp á fagnaðarlæti. „Ég varð bara skíthræddur og þau þurftu að taka það aftur niður,“ segir Eiríkur og hlær lítillega.

Ofan á allt annað breyttist líkaminn verulega. „Ég bólgnaði allur út og maginn var bara eins og ég væri óléttur. Þetta var bara eins og versta martröð sem þú getur hugsað þér.“

„Mér var síðar sagt að ég hefði verið veikasti sjúklingurinn á gjörgæslunni á þessum tíma,“ segir hann. Þegar hann náði loks áttum var hann rænulítill, hafði misst mikinn vöðvamassa og þurfti að læra að sitja og ganga upp á nýtt. Eftir 30 daga á gjörgæslu og samtals 100 daga innlögn á spítala tók við löng endurhæfing.

Kærkomin heimsókn á Barnaspítala Hringsins

Falleg fjölskylda

Áfall ofan á áfall

Lífið virtist vera að komast í fastar skorður sumarið 2023 þegar nýtt áfall dundi yfir fjölskylduna. Móðir Eiríks, Ásta Kristín Óladóttir, greindist með 3. stigs brjóstakrabbamein. Þeim var báðum sagt að þau bæru ekkert þekkt krabbameinsgen svo ljóst var að þetta var tilviljun í báðum tilfellum.

En áföllin voru ekki hætt að dynja yfir. Aðeins tveimur mánuðum eftir greiningu móður hans, í ágúst 2023, fékk Eiríkur þær fréttir að hvítblæðið hefði tekið sig upp aftur.

„Það var náttúrulega bara ömurlegt,“ viðurkennir Eiríkur. Við blasti að hefðbundin lyfjameðferð myndi ekki duga; nú þyrfti að grípa til róttækari aðgerða og undirbúa beinmergsskipti.

„Áður en við fórum til Svíþjóðar, efndi knattspyrnufélagið Þróttur til styrktarleiks okkur til stuðnings á þessum erfiðu tímum. Við fengum mikinn stuðning frá vinum, ættingjum og nærsamfélaginu í Laugardalnum og eiga þau skilið ævarandi þakkir frá okkur fjölskyldunni. Það skipti mig líka miklu máli hve vel nánustu ættingjar stóðu þétt við bakið á mér í öllu þessu ferli,“ segir Eiríkur.

Í janúar 2024 hélt Eiríkur til Lundar í Svíþjóð ásamt foreldrum sínum. Mamma hans þurfti að flýta sinni eigin meðferð til að geta fylgt syni sínum. Við tók krefjandi tímabil þar sem Eiríkur var í einangrun í einn og hálfan mánuð þar sem sóttvarnir voru nánast upp á líf og dauða.

„Ég þurfti meðal annars að fá nýjan tannbursta á hverjum degi og foreldrar mínir, sem skiptust á að vera hjá mér, komu alltaf í hreinum fötum í hvert skipti sem þau heimsóttu mig. Herbergið mitt var sprittað og einnig var sérstök sótthreinsunarsía sem var í loftræstingunni því það mátti ekki einu sinni opna glugga,“ lýsir hann. Hann dregur upp sterka mynd af upplifuninni: „Manni leið bara eins og ég væri staddur í þáttum um Chernobyl-slysið.“

Sem betur fer fannst gjafi – ókunnugur Þjóðverji – og aðgerðin heppnaðist ótrúlega vel.

Í janúar 2024 hélt Eiríkur til Lundar í Svíþjóð ásamt foreldrum sínum. Mamma hans, Ásta Kristín, þurfti að flýta sinni eigin meðferð til að geta fylgt syni sínum.

Andleg heilsa og einsemd

Þótt líkamlegu veikindin hafi verið þungbær, segir Eiríkur að andlegi þátturinn hafi reynst sér erfiðastur.

„Erfiðast í þessu öllu var andlega heilsan,“ segir Eiríkur og hikar áður en hann heldur áfram. „Maður var bara alveg á botninum. Rosa lengi.“

Hann lýsir því hvernig samfélagsmiðlar gerðu illt verra. „Að vera að fylgjast með öllum vinum sínum á samfélagsmiðlum, njóta lífsins og skemmta sér. Mér fannst ég vera að missa af öllu. Samfélagsmiðlar hafa áhrif á flesta sem hafa ekki lent í alvarlegum langtímaveikindum, en fyrir mig þarna á botninum var þetta alveg extra erfitt.“

Eiríkur segist hafa lagt gríðarlega vinnu í að byggja sig upp andlega síðan. „Ég hef reynt að gera allt sem ég gat sjálfur – ég veit ekki hversu marga sálfræðitíma ég hef farið í. En núna er ég að komast á betri stað andlega og í lífinu.“

Þótt nokkrir traustir vinir hafi verið duglegir að heyra í mér, stundum næstum of duglegir, sem að ég er þó þakklátur fyrir í dag, þá var samt fólk sem forðaðist að hitta mig. Ég held að það sé vegna þess að þau vissu ekki hvernig þau áttu að haga sér nærri mér. Sem ég skil svo sem alveg þar sem ég hefði kannski brugðist eins við,“ segir Eiríkur.

„Ég tala ekki við sumt fólk eins og ég gerði fyrir veikindin.“ bætir hann við og lýsir því hvernig hegðun sumra breyttist í kringum hann.

„Stundum upplifi ég mig eins og ég sé rosalega verndað blóm, en ég velti mér ekkert mikið upp úr því,,“ segir hann.

Aðspurður segist hann hafa fundið fyrir því að veikindin þroskuðu hann hratt, miðað við aldur, en að það hafi jafnframt skapað gjá á milli hans og jafnaldranna.

„Veikindin gerðu það að verkum að ég þroskaðist alveg ótrúlega mikið. Ég neyddist bara til þess. Ég þroskaðist einhver ár á undan – á meðan hinir voru að þroskast á annan hátt, félagslega,“ segir hann. „Þannig að þegar ég kom til baka fann ég að ég var mikið á undan í ýmsu – margt sem öðrum þótti stórmál fannst mér vera lítið mál. En þegar kom að þessu félagslega var ég pínu eftir á.“

„Ég hef fengið mikið út úr því að tjá mig og hlusta á aðra segja frá,“

Eiríkur hefur lagt gríðarlega vinnu í að byggja sig upp andlega

Ljósið í myrkrinu

Það var á þessum tímapunkti sem Ljósið kom til sögunnar. Eiríkur byrjaði að sækja endurhæfingarmiðstöðina árið 2022, en var lengi vel langyngstur þar. Hann prófaði að mæta á karlahittinga en fann sig ekki í þeim félagsskap eldri manna sem skiljanlega voru á allt öðrum stað í lífinu en hann.

Viðbrigðin að byrja í endurhæfingu voru mikil fyrir fyrrverandi íþróttamann. „Það var alveg skrítið að hafa verið í fótbolta, að rúlla upp styrktaræfingum og vera svo allt í einu gæinn þar sem gömul kona er að gera betur en þú. Það var skrítin upplifun,“ segir hann.

Nálægðin við aðra sjúklinga gat líka reynst erfið. Eiríkur glímdi við mikla vanlíðan eftir barkaskurðinn sem gerður var á gjörgæslunni og fannst óþægilegt að sjá aðra glíma við svipuð vandamál á hálsi.

Það var því kærkomið þegar stofnaður var sérstakur hópur fyrir ungt fólk á aldrinum 16 til 25 ára, undir handleiðslu iðjuþjálfa og sálfræðinga. Fyrir Eirík var þetta vendipunkturinn sem vantaði.

„Að hitta krakka sem eru að ganga í gegnum það sama og þú segir Eiríkur og hikar áður en hann bætir við: „það er ómetanlegt“. Í hópnum er meðal annars stúlka sem hann kynntist inni á spítala þegar þau voru bæði í meðferð. „Við gátum setið saman, fengið lyfin okkar og bara spjallað. Hún skildi hvað ég var að ganga í gegnum án þess að ég þyrfti að útskýra neitt.“

Hópurinn hittist reglulega við ýmis tilefni og planar alls konar samveru, hvort sem það er að fara á kaffihús, föndra, náttúruböð eða bara spjalla.

„Ég hef fengið mikið út úr því að tjá mig og hlusta á aðra segja frá,“ segir hann um að vera hluti af hópnum. „Mér finnst það hjálpa alveg helling.“

Eiríkur fór ásamt hópnum sínum í Ljósinu að heimsækja Urð

Á leið í ævintýri

Í dag er Eiríkur á góðum stað og bjart yfir þessum efnilega unga manni. Hann ákvað að breyta um stefnu og fann sig á nýrri braut eftir að hafa misst úr heilt ár í Menntaskólanum við Sund og dottið úr takti við jafnaldra sína þar. „Þetta var ekki alveg skólinn til að koma í eftir allt þetta,“ segir Eiríkur og viðurkennir að það sé „ekkert grín að koma til baka“ út í lífið. Hann fann þó réttu hilluna í Tækniskólanum þar sem hann stundar nú nám á hönnunar- og nýsköpunarbraut, auk þess sem hann er kominn aftur á vinnumarkaðinn og starfar í þjónustu á veitingastað samhliða náminu. „Það er mjög gaman og góð hugarleikfimi,“ segir hann um verkefni dagsins í dag.

Það lifnar auðsýnilega yfir Eiríki þegar talið berst að framtíðinni. Hann er greinilega spenntur fyrir því sem koma skal, en eftir áramót liggur leiðin í lýðháskóla í Danmörku í hálft ár. Þar ætlar hann að njóta lífsins, upplifa ný ævintýri og vinna upp tapaðan tíma.

„Núna er ég að komast aftur af stað í lífið,“ segir Eiríkur að lokum.