Andleg heilsa og einsemd
Þótt líkamlegu veikindin hafi verið þungbær, segir Eiríkur að andlegi þátturinn hafi reynst sér erfiðastur.
„Erfiðast í þessu öllu var andlega heilsan,“ segir Eiríkur og hikar áður en hann heldur áfram. „Maður var bara alveg á botninum. Rosa lengi.“
Hann lýsir því hvernig samfélagsmiðlar gerðu illt verra. „Að vera að fylgjast með öllum vinum sínum á samfélagsmiðlum, njóta lífsins og skemmta sér. Mér fannst ég vera að missa af öllu. Samfélagsmiðlar hafa áhrif á flesta sem hafa ekki lent í alvarlegum langtímaveikindum, en fyrir mig þarna á botninum var þetta alveg extra erfitt.“
Eiríkur segist hafa lagt gríðarlega vinnu í að byggja sig upp andlega síðan. „Ég hef reynt að gera allt sem ég gat sjálfur – ég veit ekki hversu marga sálfræðitíma ég hef farið í. En núna er ég að komast á betri stað andlega og í lífinu.“
Þótt nokkrir traustir vinir hafi verið duglegir að heyra í mér, stundum næstum of duglegir, sem að ég er þó þakklátur fyrir í dag, þá var samt fólk sem forðaðist að hitta mig. Ég held að það sé vegna þess að þau vissu ekki hvernig þau áttu að haga sér nærri mér. Sem ég skil svo sem alveg þar sem ég hefði kannski brugðist eins við,“ segir Eiríkur.
„Ég tala ekki við sumt fólk eins og ég gerði fyrir veikindin.“ bætir hann við og lýsir því hvernig hegðun sumra breyttist í kringum hann.
„Stundum upplifi ég mig eins og ég sé rosalega verndað blóm, en ég velti mér ekkert mikið upp úr því,,“ segir hann.
Aðspurður segist hann hafa fundið fyrir því að veikindin þroskuðu hann hratt, miðað við aldur, en að það hafi jafnframt skapað gjá á milli hans og jafnaldranna.
„Veikindin gerðu það að verkum að ég þroskaðist alveg ótrúlega mikið. Ég neyddist bara til þess. Ég þroskaðist einhver ár á undan – á meðan hinir voru að þroskast á annan hátt, félagslega,“ segir hann. „Þannig að þegar ég kom til baka fann ég að ég var mikið á undan í ýmsu – margt sem öðrum þótti stórmál fannst mér vera lítið mál. En þegar kom að þessu félagslega var ég pínu eftir á.“