Mikilvægi hreyfingar sem fyrsta stigs forvörn gegn krabbameinum er vel þekkt. Hreyfing getur dregið úr áhættu á ristilkrabbameini, brjóstakrabbameini og legbolskrabbameini meðal annarra. Áætlað er að 2-3% allra krabbameinstilfella sem greind eru í Bandaríkjunum megi rekja til hreyfingarleysis með mestu áhrifum á legbolskrabbamein (27% tengd hreyfingarleysi), ristilkrabbamein (16% tengd hreyfingarleysi) og brjóstakrabbamein (4% tengd hreyfingarleysi)1.
Ráðlagt er að stunda 150 mínútur af meðal ákafri hreyfingu á viku svo sem að ganga rösklega, hjóla eða synda. Einnig er ráðlagt að gera styrktaræfingar 2-3x í viku og takmarka kyrrsetu eins og unnt er. Regluleg hreyfing minnkar þreytu, bætir skap og svefn og hjálpar til við að viðhalda heilbrigðri líkamsþyngd. Börn og unglingar ættu að stunda að minnsta kosti 1 klukkustund af hreyfingu af miðlungs- eða mikilli ákefð á hverjum degi.
Hreyfing er einnig mikilvæg hjá því fólki sem greinst hefur með krabbamein þar sem það getur minnkað líkur á endurkomu krabbameins svo sem brjóstakrabbameini, ristilkrabbameini og blöðruhálskirtlakrabbameini. Hreyfing hefur jákvæð áhrif á efnaskiptabúskap líkamans og hefur einnig góð áhrif á bólgumiðla og ónæmiskerfið.
Í júní á þessu ári var mikilvæg rannsókn birt í einu virtasta læknatímariti heims sem sýndi fram á að virk þjálfun bætti lifun og dró úr endurkomutíðni hjá sjúklingum með ristilkrabbamein á stigi II og III sem fengu lyfjameðferð eftir skurðaðgerð í læknanlegu skyni2. Þetta er fyrsta slembiraðaða rannsóknin sem sýnir fram á ávinning hreyfingar en rannsóknin staðfestir það sem áhorfsrannsóknir hafa áður sýnt fram á, það er að hreyfing eftir greiningu krabbameins getur bætt horfur. Tíðni endurkomu lækkaði um 28% og lifun var bætt um 37% í íhlutunarhópnum. Íhlutunarhópurinn var í virku þjálfunarprógrammi með þjálfara í þrjú ár en samanburðarhópur fékk einungis skriflegar upplýsingar um mikilvægi hreyfingar. Sjúklingar hittu þjálfara á tveggja vikna fresti fyrsta árið og svo á fjögurra vikna fresti seinni tvö árin og ákváðu sjálfir hvers konar hreyfing var stunduð. Þeir juku heildarhreyfingu um 10 MET (metabolic equivalent task) stundir á viku en það jafngildir um 45-60 mínútna rösklegri göngu eða 25-30 mínútna skokki 3-4 sinnum í viku. Hlutfall sjúklinga á lífi 8 árum eftir greiningu var 90% í íhlutunarhóp samanborið við 83% í samanburðarhóp og því jókst heildarlifun um 7% (95% öryggisbil 1.8-12.3) sem er ekki langt frá þeim ávinningi sem sést með lyfjameðferð eftir aðgerð. Því er mikilvægt að bregðast hratt við og mæla með virku þjálfunarprógrammi fyrir þessa sjúklinga nú þegar og er það von okkar að slíkt verði niðurgreitt af Sjúkratryggingum og hægt að veita í Ljósinu. Leiðbeiningar á borð við bandarísku National Comprehensive Cancer Network (NCCN) hafa þegar bætt þessu við í sínar leiðbeiningar.
Heimildir:
1. Islami F et al. Proportion and Number of Cancer Cases and Deaths Attributable to Potentially Modifiable Risk Factors in the United States. CA Cancer J Clin 2018;68:31–54.
2. Courneya KS et al. Structured Exercise after Adjuvant Chemotherapy for Colon Cancer. N Engl J Med. 2025 Jul 3;393(1):13-25.