Ljósablaðið

1. TBL. 19. ÁRG 2025

„Ég ætla ekki að læra að prjóna“ 

Höfundur

Guðrún Friðriksdóttir, iðjuþjálfi

Rannsóknir sýna fram á mikilvægi þess að stunda handverk eða skapandi iðju, ekki síst í endurhæfingu. Handverk hefur jákvæð áhrif á andlega og líkamlega heilsu og hjálpar heilanum að festast síður í erfiðum hugsunum og áhyggjum.  

Þegar ég útskrifaðist úr iðjuþjálfun varð ég ítrekað að segja að ég hefði menntað mig í að bera kennsl á blæbrigði daglegs lífs og væri hvorki með háskólapróf í handverki né próf í föndri. Margir tengja vinnu iðjuþjálfa við einhvers konar handverk en það og önnur skapandi iðja er einungis ein birtingamynd iðjuþjálfunar. Ég tók gjarnan fram að ég kynni ekki einu sinni að prjóna og það þarf ekki að kunna að fitja upp til að vera í endurhæfingu í Ljósinu. Það þarf ekki einu sinni að kunna það til að vinna í Ljósinu. Hins vegar skiptir alla máli að gera eitthvað skapandi. Verkefnið þarf sömuleiðis að skipta einstaklinginn máli og vera valkvætt.

Meiri sköpun, minni áhyggjur

Niðurstöður æ fleiri rannsókna sýna fram á mikilvægi þess að stunda einhvers konar handverk eða skapandi iðju í daglegu lífi og ekki síst í endurhæfingu. Það ætti að vera augljóst að mannkynið er eina dýrategundin sem nýtir sköpunarkraft sinn og ímyndunarafl sér til framdráttar, annars gætu hundar keypt heilsuúr og kindur myndu sjálfar selja og græða á ull. En það sem er ef til vill ekki eins augljóst er að það er nauðsynlegt hverri einustu manneskju að vera skapandi. Hver rannsókn á fætur annarri sýna fram á gildi skapandi iðju og síðastliðið vor lét Ljósið gera heimildasamantekt á gildi skapandi iðju í endurhæfingu. Allar niðurstöður benda til þess að handverk hefur jákvæð áhrif andlega og líkamlega heilsu. Skapandi iðja er róandi og áhrifarík leið til að draga úr streitu, auka vellíðan, hamingju og lífsgæði. Heilinn er virkur ef verkefnið er spennandi og festist síður í erfiðum hugsunum og áhyggjum. Ef verkefnið er ekki svo krefjandi að fullrar einbeitingar sé þörf allan tímann hafa endurteknar, taktfastar hreyfingar góð áhrif á taugakerfið og fólki gefst kostur á að spjalla við sessunauta. Rannsóknir sýna nefnilega að félagsskapur er ekki síður mikilvægur en skapandi iðja.

Að vera skapandi árið 2025

Þessar rannsóknir eru langflestar tiltölulega nýjar. Það er vegna þess að fyrir nokkrum áratugum hefði fólk hlegið að þeirri fásinnu að árið 2025 værum við að verja tíma, peningum og mannafla í rannsóknir á skapandi iðju og jafningjastuðningi. Það hefði ekki hvarflað að fyrri kynslóðum að það þyrfti að sanna tölfræðilega að það skipti máli að gera eitthvað í höndunum sem hvetur til sveigjanlegrar, lausnamiðaðrar og sjálfstæðrar hugsunar. Þær hefðu ekki efast um að það skipti máli fyrir góða heilsu að umgangast jafningja. Þá var samfélagsgerðin allt önnur en sú sem við búum við í dag. Núna getum við farið á Heilsuveru eða á heimasíðu Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og aflað okkur upplýsinga um ráð við einmanaleika. Það hefur verið ráðherra einmanaleika í Bretlandi síðan 2018 og það þarf enn að sanna með rannsóknum að félagsleg einangrun er heilsuspillandi. Genfarsáttmálinn bannar einangrun og iðjusviptingu stríðsfanga og það ættu að vera sjálfsögð mannréttindi allra samfélagshópa óháð stöðu, heilsu og efnahag.

Ef til vill hafa okkar hugmyndir um hvað það er að vera skapandi fækkað valmöguleikum? Mögulega lítum við aðeins til handverks, að prjóna, tálga eða mála, sem skapandi en allt sem manneskjan gerir til að laga, bæta, breyta eða hagræða umhverfinu er skapandi. Það er vissulega skapandi að prjóna lopasokka og hekla rúmteppi en það er ekki síður skapandi að elda kvöldmat úr því sem er til í ísskápnum, að viðhalda samræðum í heita pottinum og finna leið til að koma í veg fyrir lekann í þakinu. Það er skapandi iðja að koma jeppa uppúr krapapolli, gott bras er jafnvel það sem gerir fjallaferðir skemmtilegar, og það er skapandi iðja að búa til notalega stemningu með kertum og koddum og þægilegri tónlist á köldum vetrarkvöldum. Það er ekki til ein rétt leið til að skapa en að sinna einhverri skapandi iðju gerir okkur að manneskjum og allar manneskjur eru skapandi á mismunandi hátt. Það tekst hins vegar ekki öllum finna sína skapand fjöl í nútímasamfélagi. Daglegt líf fólks í þéttbýli býður ekki alltaf upp á aðstæður þar sem við getum notað baggaband til að leysa vandann. Þau sem eru skapandi í að finna leiðir til að fá tölvuna til að tala við prentarann geta hins vegar haft nóg að gera.

Skapandi iðja, svefn, næring, hreyfing og útivera

Það hefði verið sérkennilegt þróunarlegt klúður og ólíklegt til árangurs ef við hefðum öll þróast á þann hátt að geta eldað úr afgöngum. Það verður einhver að hafa útsjónarsemi, færni og þekkingu til að afla matarins. Hvorug gerð sköpunargreindar er betri en hin, þær geta ekki án hvorrar annarrar verið og við búum öll yfir hæfileikum til að vera skapandi á einhverju sviði. Þess vegna reynum við í Ljósinu að vera með fjölbreytt handverk í boði til að reyna að ná til sem flestra. Ef það er ekkert í húsi sem heillar getur verið að eitthvað komi í ljós í viðtölum við iðjuþjálfa eða aðra fagaðila. Sama hvar sköpunarkrafturinn liggur skiptir máli að bera kennsl á hann, hlúa að honum og rækta því hann er jafn nauðsynlegur fyrir góða heilsu og lífsgæði og rétt næring, svefn, hreyfing og útivera.