Í nóvember 2024 vann Ágúst Ólafur Ágústsson hagfræðingur ítarlega úttekt á hagrænu virði starfsemi Ljóssins. Niðurstaðan var afgerandi: Starfsemi Ljóssins skapar um einn milljarð króna í árlegan ávinning fyrir hið opinbera. Sú upphæð er þrisvar sinnum hærri en ríkisframlagið til starfseminnar, auk hins ómælda samfélagslega ávinnings sem hún skilar.
Regína Björk Jónsdóttir og Rósa Margrét Tryggvadóttir tóku saman helstu atriði og tölur úr skýrslunni sem sýna svart á hvítu hvers vegna starfsemi Ljóssins er skynsamleg nýting á almannafé.
Eina sérhæfða endurhæfingin
Ljósið er eina sérhæfða endurhæfingarmiðstöð landsins fyrir fólk sem greinst hefur með krabbamein. Þjónustan er viðurkennd af Embætti landlæknis og Landspítalinn vísar formlega sjúklingum í Ljósið sem hluta af krabbameinsmeðferð. Sérfræðingar spítalans hafa staðfest að þessi stuðningur dragi úr dýrum innlögnum og álagi á spítalann.
Ábyrgð og hrópandi ósamræmi
Í nýjum drögum að aðgerðaáætlun stjórnvalda í krabbameinsmálum 2025–2029 er lögð áhersla á samstarf við veitendur endurhæfingarþjónustu. Þar sem Ljósið er eina sérhæfða endurhæfingarmiðstöð krabbameinsgreindra á landinu, gegnir stofnunin lykilhlutverki í framkvæmd þessarar stefnu.
Þrátt fyrir þessa ábyrgð og mikilvægi er reksturinn enn að stórum hluta háður óútreiknanlegu sjálfaflafé, þar sem framlög ríkisins duga hvergi nærri til. Þegar horft er til sambærilegra stofnana blasir við sláandi mismunur í fjármögnun:
- Heilsustofnun NLFÍ: Fær um 1,2 milljarða kr. (sinna um 1.350 skjólstæðingum).
- Reykjalundur: Fær um 2,7 milljarða kr. (sinna um 1.300 skjólstæðingum).
- Ljósið: Fær um 330 milljónir kr. (sinna um 1.700 skjólstæðingum).
Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu er fyrirhugað framlag til Reykjalundar tæplega tífalt hærra en áætlað framlag til Ljóssins, þrátt fyrir að Ljósið þjónusti fleiri einstaklinga árlega.
Hvað kostar að sleppa Ljósinu? Ef starfsemi Ljóssins hyrfi myndi kostnaður hins opinbera aukast verulega á öðrum stöðum. Í úttektinni er sá kostnaður metinn á um einn milljarð króna árlega. Það felur meðal annars í sér:
- Aukið álag á heilbrigðiskerfið: Án Ljóssins myndu fleiri leita á bráðamóttöku og heilsugæslu vegna vanlíðanar og fylgikvilla. Áætlaður kostnaður vegna þessa er á bilinu 220–370 milljónir króna.
- Tapaðar skatttekjur: Ljósið flýtir endurkomu fólks til vinnu. Ef aðeins hluti skjólstæðinga kemst fyrr út á vinnumarkaðinn skilar það ríkinu um 200–250 milljónum króna í skatttekjur og sparnað í bótakerfinu.
Hagkvæmni og ávinningur Í skýrslunni er sérstaklega varað við þróun fjárframlaga og bent á að í stað þess að styrkja þessa mikilvægu þjónustu hafi blasað við niðurskurður í drögum að fjárlögum.
Niðurstaða úttektarinnar er skýr: Hver króna sem lögð er í Ljósið skilar sér þrefalt til baka. Skýrsluhöfundur dregur saman alvarleika stöðunnar með þessum orðum: „Eitt er ljóst: Ef starfsemi Ljóssins myndi hætta rynni fljótt upp fyrir stjórnvöldum máltækið: Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur.“
Hægt er að lesa skýrsluna í heild sinni hér.