Ljósablaðið

1. TBL. 19. ÁRG 2025

Samkennd í huga og hjarta

Höfundur

Sólveig Hlín Kristjánsdóttir, sálfræðingur

Ljósmyndari

Hulda Margrét

Samkenndariðkun á sér djúpar rætur og er í grunnin eðlislæg ósk um að lifa hamingjuríku lífi. En í lífinu koma upp erfiðleikar sem oft er erfitt að mæta og stundum er auðveldara að sýna öðrum skilning og hlýju en okkur sjálfum. Við gerum gjarnan aðrar kröfur á okkur sjálf en aðra og getum verið mjög gagnrýnin á okkur og þær aðstæður sem koma upp. Samkenndariðkun snýst um að sýna sjálfum sér sama skilning og hlýju eins og maður myndi sýna öðrum. Samkenndin mildar innra samtalið og veitir þannig meiri þrautseigju og kjark gagnvart erfiðleikum. Samkenndariðkun minnkar seytingu streituhormóna og eykur seytingu á tengslahormónum og því hefur það hefur verndandi áhrif að sýna sjálfum sér mildi.

Fjöldi rannsókna sýna fram á að fólk sem er ríkt af samkennd, tekst betur á við mótlæti, óvænta atburði og tekur lífinu af meiri yfirvegun og sátt.

Þetta kom meðal annars skýrt fram í nýlegri rannsókn á Spáni þar sem fólk með ólíkar tegundir krabbameins tók þátt í átta vikna námskeiði í samkennd í eign garð (e. Mindful Self Compassion). Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu að kvíði, depurð og streita minnkuðu verulega. Þátttakendur sögðust líka finna fyrir meiri ró og stuðningi eftir námskeiðið.

Samkennd er yfirleitt iðkuð með formlegum og óformlegum æfingum. Formlegar æfingar fela til dæmis í sér hugleiðslur þar sem góðvildarsetningar eru í forgrunni, en óformlegar æfingar eru fléttaðar inn í daglegt líf – eins og að njóta kaffibollans, liggja í heitapotti, hringja í góðan vin eða gera eitthvað annað sem gagngert er gert til að hlúa vel að sér.

Í samkenndinni er verið að vinna sérstaklega með að tala hlýlega við sjálfan sig, sýna sér skilning og átta sig á að við erum ekki ein. Við erum öll tengd og finnum fyrir sömu mannlegu tilfinningum og oft eru sömu hugsanamynstrin til staðar þó svo að við séum ólík. Í núvitund og samkenndariðkun flækjumst við síður í gömlum mynstrum og áttum okkur fyrr á því þegar venjur sem þjóna okkur ekki lengur, taka yfir.

Hugrekki og trú á eigin getu vex líka með samkenndariðkun því það krefst hugrekkis að gangast við tilfinningum sínum og hugsunum. Við verðum óhræddari að vera með erfiðum tilfinningum og mætum líðandi stund með meira æðruleysi. Eins vex líka tilfinningalegt öryggi gagnvart öðrum og við eigum auðveldara með að setja mörk.

Ávinningur af því að líða vel hefur einnig mikil áhrif á aðra í kringum okkur. Vellíðan okkar hefur góð áhrif á líðan annarra í kringum okkur.

Ein æfing sem hægt er að gera hvar og hvenær sem er til dæmis að gefa sér stutta samkenndarstund og jafnvel setja hönd á hjartstað til að sýna sér stuðning og hlýju:

Fyrsta skrefið er núvitundin, að átta sig á tilfinningum sínum og gangast við þeim. Finna fyrir þeim í líkamanum og sýna líkamlegum einkennum góðlátlega forvitni.

Hverju finn ég fyrir? Er herpingur í hálsinum, spenna í vöðvum, fæ ég sting í magann?

Leyfa þessu öllu að ferðast um líkamann.

Annað skref er að átta sig á að þetta eru eðlileg mannleg viðbrögð, svona birtist mennskan okkar og að flestum öðrum myndi líða svona í sambærilegum aðstæðum.

Þriðja skrefið er góðvildin: að sýna sér skilning og mildi, segja einhver huggunarorð við sjálfan sig eins og við myndum gera gagnvart ástvini sem finnur til. Ekki til að láta sársaukann hverfa heldur til að halda utan um hann af hlýju og umhyggju. Eins og umhyggjusamt foreldri myndi gera gagnvart veiku barni, hlúa eins vel að því og mögulegt er í erfiðum aðstæðum.

Samkenndarstund getur breytt miklu og það er gott að muna eftir því að með því að hlúa að sjálfum sér þá erum við að hlúa að öðrum í kringum okkur.