Ljósablaðið

1. TBL. 19. ÁRG 2025

Öðlaðist nýja sýn: „Maður er pínu sleginn utan undir og neyðist til að endurhugsa lífið“

Höfundur

Rósa Margrét Tryggvadóttir

Ljósmyndari

Hulda Margrét

Þegar Aníta Rögnvaldsdóttir, 31 árs lögmaður og tveggja barna móðir, fann hnút í brjóstinu haustið 2023 óraði hana ekki fyrir því að eitthvað alvarlegt væri á ferðinni. En þegar í ljós kom að greiningin var krabbamein breyttist allt og hún hvarf inn í hvirfilbyl meðferða. Hér segir hún frá reynslu sinni, samviskubitinu gagnvart fjölskyldunni og ómetanlegum stuðningi Ljóssins sem hjálpaði henni að finna fótfestu og endurheimta jafnvægi í lífinu.

„Ég greinist í október 2023 og þá er ég 31 árs," segir Aníta og hikar áður en hún bætir við: „Svo kemur í ljós, þarna um miðjan október, að þetta var krabbamein.“ Aðgerðin var ákveðin strax og fór fram viku síðar. Á eftir fylgdu lyfjameðferð og geislar.

„Þetta var ótrúlega skrítið og mikið sjokk og ég held að það sé jafnvel enn að síast inn að maður hafi raunverulega verið með krabbamein. Maður var lengi að kyngja þessum fréttum og var líka stressaður fyrir hönd fjölskyldunnar. Ég fékk engan tíma til að melta þetta, því það tóku strax við læknatímar, blóðprufur, myndatökur og rannsóknir,“ segir hún og bætir við: „Snjóboltinn fór strax að rúlla og þú hverfur inn í einhvern hvirfilbyl.“

Hún segist þó hafa verið fljót að komast í ákveðið hugarfar til að takast á við verkefnið.

Aníta á aðgerðardegi

Upplifði samviskubit

Fjölskyldan var nýbúin að ganga í gegnum erfiðan missi þegar Aníta greindist. Tengdamóðir hennar hafði fallið frá eftir stutta baráttu við krabbamein rúmu ári áður. Áfallið sat enn þungt í öllum, sérstaklega börnunum.

„Fyrsta tilfinningin mín var eiginlega samviskubit gagnvart fólkinu mínu og aðstandendum, að þurfa að fá þessar vondu fréttir,“ segir hún og bætir við að hún hefði viljað hlífa sínum nánustu og íhugaði jafnvel að halda þessu fyrir sig.

„Ég ætlaði fyrst bara ekki að segja neinum frá þessu og ég ætlaði bara að græja þetta og fara í gegnum þetta verkefni,“ lýsir Aníta sem áttaði sig þó fljótt á að það væri ekki rétta leiðin.

„Ég hélt að ég ætti ekkert heima þarna“ – fyrstu skrefin í Ljósið

„Það var eiginlega ekki fyrr en formlegri meðferð lauk sem ég áttaði mig almennilega á því hvað hafði gerst. Það var eins mér hefði verið hrækt út úr hinum endanum og maður stendur eftir og hugsar: „Vá, hvað var eiginlega að gerast?“ lýsir Aníta.

Aníta segist hafa fengið bæklinga frá öllum stöðum sem eiga að styðja mann í þessu ferli, strax eftir greininguna á Landspítalanum, þar á meðal frá Ljósinu. Hún lagði þá þó til hliðar.

„Ég hugsaði bara, ég er ekkert að fara spá í þessu. Ég var líka með einhverja hugmynd um að þarna væru allir svo voðalega veikir,” sagði hún.

Það var vinkona hennar, sem þekkti til, sem hvatti hana þó til að prófa Ljósið og skrá sig á netinu.
Þannig varð upphafið að hennar vegferð í Ljósinu. Hún bjó þá á Selfossi og var í lyfjameðferð, svo fyrsti tíminn var í gegnum Teams.
„Það var rosalega gott að ná aðeins að spjalla og kynnast því hvað Ljósið er,“ segir Aníta.

„Mér fannst strax gott að vera þarna“

Í janúar fór hún í fyrsta sinn í húsið og ákvað að prófa mánudags hádegismatinn fyrir konur.

„Ég fékk rosalega hlýjar móttökur. Ég var ekkert viss um að þetta yrði eitthvað fyrir mig, en um leið og ég kom fannst mér gott að vera þarna,“ segir Aníta sem segir að það hafi skipt sérstaklega miklu máli að hitta fólk á aldur við hana.

„Mér fannst ótrúlega dýrmætt að spegla mig í fólki á svipuðum aldri. Allir sem ég hafði þekkt með krabbamein voru miklu eldri. Maður náði ekki alveg að spegla sig í því,“ segir hún og bætir við:

„Þú ert ótrúlega mikið einn þegar þú ert veikur, þó þú sért með gott fólk í kringum þig. Það hjálpaði mjög mikið að eiga einhvern fastan punkt.“

„Mér fannst ótrúlega dýrmætt að spegla mig í fólki á svipuðum aldri" segir Aníta.

Hreyfingin mikilvæg

Aníta hefur alla tíð verið virk, meðal annars í fimleikum og CrossFit, og því hafi hreyfing skipt miklu máli fyrir hana í ferlinu.

„Ég vissi ekki einu sinni af líkamsræktarsalnum fyrst. Ég gat nýtt sjúkraþjálfara, hóptíma og fengið mælingar á þoli og styrk. Þú missir svo mikið niður á meðan á þessu stendur,“ segir hún.

Á sama tíma var rútínan ómetanleg.

Býr að því að hafa verið hraust fyrir

„Mér finnst svo frábært að sjá að það var líka verið að hjálpa manni að viðhalda þessu. Það eru svo margir – og ég er alveg sek um það sjálf – sem hugsa bara: „Æ, ég má alveg vera uppi í sófa, ég er veik.“ En þetta skiptir svo miklu máli, sérstaklega undir leiðsögn þjálfara sem vita hvað þeir eru að gera. Það breytist svo margt hjá manni,“ segir hún og staðfestir að þol og styrkur, sem hún hafði byggt upp hafi að sjálfsögðu minnkað talsvert.

„Það fór allt í skrúfuna. Það er bara þannig,“ segir Aníta sem segir það þó ekki hafa komið henni á óvart.

„Ég var eiginlega undirbúin undir að það yrði hluti af þessu, og mér fannst merkilegt hvað maður nær sér fljótt aftur. Við vitum að maður býr alveg vel að því að hafa verið bara hraustur þegar maður lendir í svona veikindum; maður er einhvern veginn betur búinn til að takast á við þetta og kemst fyrr til baka,“ segir hún.

Gott að hafa fyrirmyndir

Aníta viðurkennir að það hafi tekið á að sjá líkamann breytast í meðferðinni.

„Þetta hefur auðvitað haft áhrif á allt lífið og líka bara sjálfsmyndina manns, hún breytist ótrúlega mikið,“ segir Aníta.

„Ég var orðin sköllótt og búin að þyngjast um tíu kíló. Manni leið ekkert æðislega vel með sjálfan sig,“ segir hún og bætir við að það hafi hjálpað mikið að finna sér fyrirmyndir í ferlinu og sjá þannig að bataferlið væri mögulegt. Slíkar fyrirmyndir fann hún meðal annars í konum sem höfðu deilt reynslu sinni á samfélagsmiðlum. Það hvatti hana í að gera slíkt hið sama, í von um að hún gæti sjálf hjálpað öðrum konum í þessum aðstæðum.
„Ég hugsaði: „Ef hún gat gert þetta, þá hlýt ég að geta það líka.“

Stoltir af mömmu sinni

Erfiðast að segja börnunum frá

Aníta segir að eitt af því erfiðasta við að greinast hafi verið að þurfa að segja sonum hennar, sem þá voru sex og níu ára, frá því að hún væri með krabbamein, rétt eftir að amma þeirra lést eftir sína baráttu.

„Þeir voru bara nýbúnir að missa ömmu sína úr einhverju sem hét líka krabbamein. Þó að það hafi alls ekki verið það sama. Fyrir þeim var þetta bara það sama,“ segir Aníta

Hún og eiginmaður hennar lögðu þó mikla áherslu á opið spjall og að drengirnir gætu alltaf leitað til þeirra og fengju að vera eins mikið með og hægt var.
„Við lögðum rosa mikið upp úr því að við gætum alltaf spjallað og að þeir gætu alltaf leitað til okkar,“ segir hún en hún segir drengina hafa verið ótrúlega bratta á þessum erfiða tíma en fjölskyldan nýtti sér meðal annars húmor til að komast í gegnum aðstæðurnar.

„Þeim fannst voða spennandi að fá að koma með að raka á mér hárið. Eldri sonur minn kallaði mig svo Michael Jordan í hálft ár og hinn kallaði mig spælegg,“ segir Aníta hlæjandi.

Hármissirinn reynist flestum erfiður

Ný sýn á lífið

Eftir meðferðina tók við nýtt tímabil þar sem hún þurfti smám saman að læra að fóta sig aftur. Vinnan var stór hluti af því ferli.

„Ég fór á námskeiðið Aftur til vinnu og það var mjög gagnlegt. Ég er kannski ekkert sérstaklega góð í að setja sjálfri mér mörk,“ viðurkennir hún en hún segist alltaf hafa verið metnaðarfull.

„Ég byrjaði í hlutastarfi og svo fór maður að bæta smátt og smátt við sig. En það var alveg brekka,“ segir Aníta sem segir vinnustaðinn þó hafa stutt vel við bakið á henni.

Þegar rútínan fór aftur að smella saman byrjaði hún að taka eftir því hversu mikið veikindin höfðu haft áhrif á lífssýnina.
„Ég missti náttúrulega ótrúlega mikið úr á þessum mánuðum sem ég var í meðferð, bæði úr lífi strákanna minna, vinkvenna minna og alls í kringum mig. Þá breytist viðhorfið – ekki bara gagnvart stóru hlutunum heldur líka litlu hlutunum. Fótboltamót, skólaföndur… það er ekkert sjálfsagt mál að maður geti verið með. Maður kann betur að meta það. Maður er einhvern veginn þakklátari og maður lítur öðrum augum á hlutina. Ég læt það ekki fara eins mikið í taugarnar á mér þegar eldri peyinn minn er ekki búinn að taka til í herberginu sínu,“ segir hún og hlær.

„Þetta hljómar kannski rosalega klisjukennt, en þú færð svona nýja sýn á lífið, lærir betur að kunna að meta það,“ segir hún og bætir við: „Hlutirnir verða ekki eins sjálfgefnir. Bara að vera þarna, vera með og taka þátt.“
„Þetta er tilfinning sem kemur á mjög mjög óvæntum tímapunktum,“ segir Aníta.

Kippt út úr hamstrahjólinu

Hún segir að þarna hafi Ljósið einnig átt stóran þátt í því að endurmóta sýnina á lífið.

„Auðvitað er þetta líka tengt því að maður verði svona veikur og maður upplifir að heilsunni manns er kippt í burtu. En það sem var mikið verið að ræða við okkur í Ljósinu var að nýta það að vera kippt út úr sínum raunveruleika og úr sínu hamstrahjóli, í það að endurhugsa hvað mann langar virkilega að gera í lífinu,“ segir Aníta sem segist sjálf hafa áttað sig betur á því hvar hún væri í raun ómissandi.

„Ég fór í veikindaleyfi í marga, marga mánuði, og fyrirtækið lifði alveg af. Á meðan maður þarf meira að vera til staðar á öðrum stöðum eins og bara fyrir fjölskyldu og vini. Mér finnst maður aðeins hafa lært það líka að „nýta“ sér þetta „tækifæri“, ef það má kalla þetta það. Maður er pínu sleginn utan undir og neyðist til að endurhugsa lífið,“ segir hún.

„Ég hugsaði: „Ef hún gat gert þetta, þá hlýt ég að geta það líka.““

„Tapar engu á að prófa“

Þegar hún er spurð hvað hún myndi ráðleggja öðrum sem eru að greinast er hún afdráttarlaus:

„Ég myndi hvetja alla sem eru í „þessum pakka“ að prófa Ljósið,“ segir hún ákveðin.

„Margir halda, eins og ég gerði, að þetta sé ekki fyrir þau eða að þau þurfi ekki á þessu að halda. En þú tapar engu á því að prófa.“

„Það er bara svo gott að koma. Þó það sé ekki nema bara sem vettvangur til þess að kynnast fólki sem er í sambærilegri stöðu og þú,“ segir hún og bætir við að það eigi sérstaklega við um ungt fólk sem greinist með krabbamein.

„Það er oft svolítið svona erfiðara,“ segir hún.

„Svo margir hafa sagt við mig – eða í raun allir sem hafa farið í Ljósið virðast segja, eftirá: „Æ, ég vildi bara að ég hefði farið fyrr.“ Ég upplifði það líka sjálf. Þetta er svo fjölbreytt starfsemi og þó þú sért ekki í einhverju stífu prógrammi er bara gott að koma. Þú ert í öruggu umhverfi og hittir fólk sem skilur hvað þú ert að ganga í gegnum,“ segir Aníta að lokum.