Ljósablaðið

1. TBL. 19. ÁRG 2025

Fjölbreytni í endurhæfingu í 20 ár

Höfundur

Hólmfríður Einarsdóttir, iðjuþjálfi

Ljósið fagnaði 20 ára afmæli í ár og bauð af því tilefni upp á fjölbreytta afmælisdagskrá. Viðburðirnir voru allt frá fræðsluerindum til hláturjóga og voru einstaklega vel sóttir svo það er óhætt að segja að það hafi verið líf og fjör í húsinu þessa afmælisdaga. 

Fjölbreytt iðja

Eitt af hlutverkum iðjuþjálfa er að styðja við innihaldsríka þátttöku í daglegu lífi þar sem þátttaka og tilgangur bæta líðan og lífsgæði. Ein leið til að vinna að þessu markmiði er að bjóða upp á fjölbreytta iðju í endurhæfingu. Þeir sem nýta sér endurhæfingarúrræði Ljóssins eru allir að vinna að ákveðnum bata en engir tveir eru eins og það á einnig við um markmið þeirra, áskoranir og hvatningu til framfara. Endurhæfingin í Ljósinu er einstaklingsmiðuð og unnið er út frá heildrænni nálgun sem í stuttu máli má segja að sé nálgun sem tekur á öllum hliðum manneskjunnar hvort sem þær eru sálrænar, líkamlegar, félagslegar eða andlegar. Því er óhætt að segja að það geta boðið upp á fjölbreytta iðju í endurhæfingu styður við heildræna og einstaklingsmiðaða nálgun. Fjölbreytni í verkefnum, umhverfi og nálgun hjálpar einnig til við að halda þeim sem nota þjónustuna einbeittum og áhugasömum.

Afmælisviðburðir Ljóssins

Í tilefni af 20 ára afmæli Ljóssins í byrjun september sl. var boðið upp á sérstaka afmælisdagskrá dagana 14. ágúst til 8. september. Dagskráin var markvisst hugsuð með fjölbreytni í huga og tækifærið notað til að kynna fyrir notendum Ljóssins handverk, hreyfingu og fræðsluerindi sem alla jafna eru ekki í hefðbundinni endurhæfingardagskrá.

Við kölluðum saman ólíkt fagfólk, ólíkar greinar og ólíkar nálganir. Auk fagfólksins í Ljósinu voru sérfræðingar á borð við Jóhannes Kára augnlækni, Jósep Blöndal lækni og Virpi Jokinen skipuleggjanda sem lögðu okkur lið með áhugaverðum fræðsluerindum um áhrif skipulags á líðan, svefn, næringu, verki og áhrif lyfja á augnheilsu svo eitthvað sé nefnt. Við fengum líka til okkar fólk sem kann að kveikja gleði og sköpun, hvort sem það er í tónlist, hreyfingu eða listum og handverki. Þar má nefna hláturjóga, leirvitund, dans- og hreyfivinnustofu, tónheilun, liti og ljósmyndun. Óhætt er að segja að dagskráin hafi verið blanda af dýpt og léttleika með áhugaverðri fræðslu en ekki síður tækifæri til að prófa eitthvað nýtt, skapa og vekja áhuga og gleði. Enda er allt þetta nauðsynlegt í heilbrigðri endurheimt. Mikið líf og fjör var í húsnæði Ljóssins þessa daga. Til samans voru þetta 17 viðburðir og var þátttakan frábær en vel yfir 300 heimsóknir voru á viðburðina.

Svefn og krabbamein, teiknun í núvitund, matur, meðferð og mildi

Fækkum, flokkum og röðum, augnheilsa og áhrif lyfja, leirheilun

Tilgangur endurhæfingar

Tilgangur endurhæfingar er ekki eingöngu að byggja upp styrk eða virkni heldur einnig að endurheimta sjálfstæði, byggja upp sjálfsmynd í nýjum líkama og finna tilgang.

Í Ljósinu sést daglega hversu mikilvægur vettvangur er fyrir fjölbreytta iðju og heildræna nálgun í endurhæfingu.

Ef vel tekst til er áhugi vakinn, sjálfsmyndin eflist og þátttaka í iðju bæði styrkir og snertir.