Hreyfing sem hluti af meðferð
Það er ekki langt síðan krabbameinssjúklingum var yfirleitt ráðlagt að hvíla sig í meðferð en það hefur nú svo sannarlega breyst. Fyrstu hreyfiráðleggingar voru afar varfærnar, eða aðeins 45% af hámarksákefð, sem er mjög lítil áreynsla. En síðustu 15 ár hafa viðhorfin gjörbreyst vegna umfangsmikilla rannsókna.
Eftir ráðstefnu ICPTO (International Conference on Physiotherapy in Oncology) árið 2018 voru gefnar út nýjar ráðleggingar um hreyfingu fyrir krabbameinssjúklinga.
Þær ráðleggingar marka breytingu í viðhorfi til hreyfingar, þar sem hún er nú talin bæði örugg og gagnleg sem hluti af meðferð.
Í dag eru þær á borð við almennar lýðheilsuráðleggingar og leggja áherslu á reglulega hreyfingu flesta daga vikunnar.
Ljóst er að regluleg þjálfun dregur úr skaðlegum áhrifum krabbameinsmeðferða, hjálpar til við viðhald á líkamlegri færni og eykur lífsgæði.
Sýnt hefur verið fram á að þjálfun er gagnleg á öllum stigum, til undirbúnings fyrir meðferð, í meðferðarferlinu og eftir að meðferðinni lýkur.
Einnig hefur verið sýnt fram á að líkamleg þjálfun dregur úr kvíða, eykur orku, virkni og vellíðan og er eitt af fáum bjargráðum sem virkilega gagnast gegn þreytu sem er algeng meðal krabbameinsgreindra.
Meðal annars benda rannsóknir til þess að aukið blóðflæði við hreyfingu hjálpi líkamanum að vinna úr og losa úrgangsefni á skilvirkari hátt.
Einnig eru vísbendingar um að þjálfun, og þar með bætt blóðflæði og aukið súrefni í vefjum, geti haft „róandi“ áhrif á krabbameinsfrumur, í þeim skilningi að það dregur úr streitu í vefjum og skapar líkamanum hagstæðara umhverfi.
Viðmið hreyfingar ætti að vera á bilinu 30-60 mínútur á hverjum degi, allt frá göngutúrum upp í líkamsrækt. Það geta komið dagar sem maður er úr leik andlega og líkamlega en þá má ekki brjóta sig niður fyrir það og mikilvægt er að horfa fram á veginn, hlusta á líkamann og taka einn dag í einu. Það sem skiptir mestu máli er að halda áfram. Jafnvel stuttur göngutúr, í stað þess að leggjast upp í sófa, getur gert kraftaverk fyrir líkama og sál. Þjálfun gerir hlutina léttari og oftar en ekki dregur hún úr þreytu og verkjum, að mæta er sigur í sjálfu sér þó afköstin séu mismikil.