Ljósablaðið

1. TBL. 19. ÁRG 2025

Líkamleg virkni sem hluti af meðferð blöðruhálskrabbameins

Stefán Diego GarciaMark Bruun Kristensen

Höfundar

Stefán Diego

Mark Bruun Kristensen

Indriði Thoroddsen

Ljósmyndari

Hulda Margrét

Þjálfun undir handleiðslu fagfólks skilar alltaf betri árangri, þannig skilar fólk meiri afköstum í æfingum, hvort sem um er að ræða þol-, styrktar- eða liðleikaþjálfun.

Blöðruhálsmeðferð

Blöðruhálskrabbamein er algengasta krabbameinsgreiningin hjá körlum og helstu meðferðir við blöðruhálskrabbameini eru brottnám á blöðruhálskirtli, andhormónameðferð, geislameðferð og í sumum tilfellum lyfjameðferð. Þessar meðferðir geta verið árangursríkar, en því miður fylgja þeim oft ýmsar aukaverkanir. Algengustu aukaverkanirnar eru þvagleki, tíðar klósettferðir, risvandamál, auknar tilfinningasveiflur, aukin þreyta, minni orka og drifkraftur, tap á vöðvamassa og þoli, aukning á fitumassa (sérstaklega vegna andhormóna meðferðar).

Líkamsrækt og andhormónameðferð

Í nýlegum rannsóknum kemur skýrt fram að líkamsrækt er bæði örugg og gagnleg fyrir karla í andhormónameðferð, sem þýðir að hreyfing hefur ekki neikvæð áhrif á meðferðina og engar breytingar sjást á PSA né gildi testósteróns í tengslum við neina tegund líkamsræktar. Þvert á móti hefur þjálfun jákvæð áhrif á orku og virkni í daglegu lífi, eykur styrk og vöðvamassa, bætir hjarta- og lungnaþol og dregur úr þreytu meðal einstaklinga í andhormóna meðferð. Árið 2017 var birt samantektarrannsókn sem staðfestir ofangreint og sýnir einnig fram á bætta kynlífsgetu og bendir til þess að þjálfun dragi úr aukaverkunum andhormóna.

Út frá þessum niðurstöðum getum við dregið þá ályktun að testósterón sem myndast við líkamsrækt er ekki skaðlegt og hefur því frekar jákvæð áhrif á einstaklinga í andhormónameðferð.

Í Ljósinu er unnið samkvæmt sömu meginreglum, þar sem íþróttafræðingar og sjúkraþjálfarar vinna saman að því að styðja einstaklinga í meðferð með öruggri og markvissri hreyfingu.

Hreyfing sem hluti af meðferð

Það er ekki langt síðan krabbameinssjúklingum var yfirleitt ráðlagt að hvíla sig í meðferð en það hefur nú svo sannarlega breyst. Fyrstu hreyfiráðleggingar voru afar varfærnar, eða aðeins 45% af hámarksákefð, sem er mjög lítil áreynsla. En síðustu 15 ár hafa viðhorfin gjörbreyst vegna umfangsmikilla rannsókna.

Eftir ráðstefnu ICPTO (International Conference on Physiotherapy in Oncology) árið 2018 voru gefnar út nýjar ráðleggingar um hreyfingu fyrir krabbameinssjúklinga.

Þær ráðleggingar marka breytingu í viðhorfi til hreyfingar, þar sem hún er nú talin bæði örugg og gagnleg sem hluti af meðferð.

Í dag eru þær á borð við almennar lýðheilsuráðleggingar og leggja áherslu á reglulega hreyfingu flesta daga vikunnar.

Ljóst er að regluleg þjálfun dregur úr skaðlegum áhrifum krabbameinsmeðferða, hjálpar til við viðhald á líkamlegri færni og eykur lífsgæði.

Sýnt hefur verið fram á að þjálfun er gagnleg á öllum stigum, til undirbúnings fyrir meðferð, í meðferðarferlinu og eftir að meðferðinni lýkur.

Einnig hefur verið sýnt fram á að líkamleg þjálfun dregur úr kvíða, eykur orku, virkni og vellíðan og er eitt af fáum bjargráðum sem virkilega gagnast gegn þreytu sem er algeng meðal krabbameinsgreindra.

Meðal annars benda rannsóknir til þess að aukið blóðflæði við hreyfingu hjálpi líkamanum að vinna úr og losa úrgangsefni á skilvirkari hátt.

Einnig eru vísbendingar um að þjálfun, og þar með bætt blóðflæði og aukið súrefni í vefjum, geti haft „róandi“ áhrif á krabbameinsfrumur, í þeim skilningi að það dregur úr streitu í vefjum og skapar líkamanum hagstæðara umhverfi.

Viðmið hreyfingar ætti að vera á bilinu 30-60 mínútur á hverjum degi, allt frá göngutúrum upp í líkamsrækt. Það geta komið dagar sem maður er úr leik andlega og líkamlega en þá má ekki brjóta sig niður fyrir það og mikilvægt er að horfa fram á veginn, hlusta á líkamann og taka einn dag í einu. Það sem skiptir mestu máli er að halda áfram. Jafnvel stuttur göngutúr, í stað þess að leggjast upp í sófa, getur gert kraftaverk fyrir líkama og sál. Þjálfun gerir hlutina léttari og oftar en ekki dregur hún úr þreytu og verkjum, að mæta er sigur í sjálfu sér þó afköstin séu mismikil.

Þreyta og hreyfing

Þreyta er ein algengasta aukaverkun í og eftir krabbameinsmeðferð, nánast allir upplifa aukna þreytu og orkuleysi en í mismiklum mæli. Þar kemur hreyfing og slökun sterk inn og er lykilatriði til að berjast gegn þessari aukaverkun. Krabbameinstengd þreyta hverfur ekki endilega eingöngu við að hvíla sig, því er gott að hreyfa sig aðeins til að ná betri hvíld. Líkamleg þreyta ýtir nefnilega undir betri svefn. Hæfileg blanda af styrktar- og þolþjálfun skilar bestum árangri við að draga úr þreytu.

Rannsóknir sýna að 15–20 mínútna hvíld eða slökun yfir daginn, þar sem líkami og hugur fá að hvílast og við kúplum okkur alveg út, getur gert gæfumuninn til að við náum að endurhlaða batteríin. Mikilvægt er þó að fara ekki yfir þann tíma til að forðast truflun á nætursvefni. Þjálfun hefur ávallt jákvæð áhrif á þreytu og það er aldrei of seint að byrja.

Íþróttasalur Ljóssins er vinsæll meðal þjónustuþega

Þrjú stig endurhæfingar

Endurhæfingu má skipta í þrjú stig, en það fer eftir því hvar einstaklingar eru staddir í sínu endurhæfingarferli: forhæfing (e. Prehabilitation), endurhæfing (e. Rehabilitation) og viðhaldsþjálfun (e. Palliation).

1. Forhæfing: Nýtt hugtak þar sem aukin áhersla hefur verið lögð á undanfarin ár og byggir á að undirbúa einstaklinga fyrir meðferðir og aðgerðir til að bæta árangur. Þjálfun fyrir aðgerð hjálpar líkamanum að takast á við aðgerðina og rannsóknir sýna að því betra líkamsformi sem einstaklingar eru í þegar þeir fara í meðferð, því betur undirbúnir eru þeir til að takast á við allar tegundir krabbameinsmeðferða. Til að mynda getur þjálfun fyrir aðgerð bætt árangur og flýtt fyrir endurheimt eftir aðgerð.

Oft getur reynst erfitt að stunda forhæfingu þar sem meðferð hefst í flestum tilfellum fljótlega eftir greiningu. Þó hún hefjist oft fljótt eftir greiningu, skiptir hver vika í þjálfun fyrir krabbameinsmeðferð máli. Almennt er mikilvægt að fylgja lýðheilsuráðleggingum um hreyfingu og næringu til að vera undirbúinn fyrir óvænt verkefni, eins og krabbameinsgreiningu. Besta forhæfingin er því að vera almennt virkur og í góðu formi bæði líkamlega og andlega.

2. Endurhæfing: Markmið endurhæfingar er að hjálpa einstaklingum að endurheimta og viðhalda virkni í daglegu lífi samhliða og eftir meðferð. Það felur í sér skipulagða hreyfingu sem byggist á líkamlegu ástandi viðkomandi, með það að markmiði að draga úr neikvæðum áhrifum meðferða og bæta líkamlega getu eftir meðferð.

3. Viðhaldsþjálfun: Þjálfun fyrir einstaklinga með langvinna sjúkdóma, hvort sem þeir eru í meðferð eða ekki. Markmiðið er að viðhalda líkamlegri færni eins lengi og mögulegt er og að hjálpa einstaklingum að viðhalda sjálfstæði í daglegum verkefnum, þannig að þeir geti lifað virku og góðu lífi.

Þjálfun undir handleiðslu fagfólks skilar alltaf betri árangri, þannig skilar fólk meiri afköstum í æfingum, hvort sem um er að ræða þol-, styrktar- eða liðleikaþjálfun. Fagfólk leiðréttir einnig tækni og slæma líkamsbeitingu. Til að fá sem besta alhliða útkomu er mikilvægt að sinna fjölbreyttri þjálfun, það er styrktar- þol- og liðleikaþjálfun. Einnig er jafnvægisþjálfun mikilvæg fyrir þá sem eru í fallhættu.

Þjálfunarþættir og lýðheilsuráðleggingar
Þolþjálfun bætir nýtingu súrefnis í líkamanum og loftskipti í lungum og eykur jafnframt súrefnisupptöku í vöðvum. Þolþjálfun styrkir ekki vöðva, en bætir vöðvaþol, þ.e. hversu lengi vöðvar geta unnið.
Best er að þjálfa þol 30 mínútur í senn í það minnsta þrisvar sinnum í viku af miðlungsákefð. Þá ætti hjartað að slá hraðar, líkaminn að hitna og öndunin að verða dýpri. Ef 30 mínútur í senn eru of mikið er hægt að skipta þolþjálfun niður í til dæmis 3×10 mínútur eða 2×15 mínútur, en ákjósanlegast er að ná 30 mínútum í heild.

Styrktarþjálfun eflir meðal annars ónæmiskerfið og bætir hormónabúskap, bæði vegna kynhormóna og insúlíns. Sterkir vöðvar styðja betur við liðamót og vernda þau. Mælt er með styrktarþjálfun að lágmarki þrisvarí viku, 30 mínútur í senn. Nota þarf þyngdir og mótstöðu og framkvæma 2-3 sett fyrir stærstu vöðvahópana með fáum endurtekningum.

Mikilvægi liðleikaþjálfunar er oft vanmetið. Stirðleiki er algeng aukaverkun vegna krabbameinsmeðferða, ekki síst í tengslum við hormónabælandi lyfja. Sýnt hefur verið fram á að liðleikaþjálfun ein og sér getur bætt lífsgæði og líðan, viðhaldið eðlilegri starfsemi bandvefsins og dregið úr líkum á meiðslum. Ráðlagt er að teygja vel tvisvar sinnum í viku og halda hverri teygju í a.m.k. 30-45 sekúndur.

Neðanbeltis-sjúkraþjálfun
Lárus Jón Björnsson er sjúkraþjálfari sem hefur sérhæft sig í neðanbeltis-vandamálum hjá karlmönnum og starfar hjá TÁP í Kópavogi. Við í Ljósinu höfum mælt með honum vegna vandamála sem tengjast krabbameini í blöðruhálsi. Lárus veitir fræðslu, ráðgjöf og kennir viðeigandi æfingar. Undirbúningur hjá Lárusi fyrir brottnám á blöðruhálskirtli hefur til að mynda dregið mjög úr aukaverkunum eins og þvagleka í kjölfar aðgerðar.

Heimildir
1. Jason R Gardner , Patricia M Livingston, Steve F Fraser.(2013). Effects of exercise on treatment-related adverse effects for patients with prostate cancer receiving androgen-deprivation therapy: a systematic review. DOI: 10.1200/JCO.2013.49.5523

2. Gao Yunfeng, He Weiyang, He Xueyang, Huang Yilong, Gou Xin. (2017). Exercise overcome adverse effects among prostate cancer patients receiving androgen deprivation therapy: An update meta-analysis. DOI: 10.1097/MD.0000000000007368