Handverk er öflugt tæki í endurhæfingu sem veitir hugarró og tilgang. Thelma Björk Jónsdóttir nýtir sérfræðiþekkingu sína í fatahönnun og jógafræðum til að leiða námskeiðið Slakað og skapað í Ljósinu. Hún segir rannsóknir sýna ótvíræðan ávinning þess að vinna að sköpun í hópi.
„Þegar við fáum að skapa með höndunum þá kemur bein tenging í hjartað,“ segir Thelma Björk Jónsdóttir. Hún er fatahönnuður með meistaragráðu í listkennslu, jógakennari og hefur sérhæft sig í hugleiðslu og jógaþerapíu. Í Ljósinu stýrir hún námskeiðinu Slakað og skapað þar sem fagþekking hennar og persónuleg reynsla af krabbameinsgreiningu tvinnast saman við endurhæfingu þátttakenda.
Nálgun Thelmu í Ljósinu byggir á þeirri hugmyndafræði að handverk sé meira en dægrastytting. Það er markviss leið til að kyrra hugann í krefjandi aðstæðum. „Þetta er ákveðin listþerapía,“ útskýrir hún. „Þú ert alltaf að fara úr huganum, gefa huganum leyfi til þess að slaka á þannig að líkaminn fái bara að gera og vera“.
Hér er verið að slaka og skapa.
Fallegar hendur
Handverk sem bjargráð í fangelsum
Til að undirstrika hversu öflugt bjargráð handverkið getur verið bendir Thelma á bresku góðgerðasamtökin Fine Cell Work. Samtökin fara inn í fangelsi og kenna föngum, sem flestir eru karlmenn, útsaum og handverk.
„Þetta eru fangelsi þar sem menn eru lokaðir inni í klefa í 17 tíma,“ segir Thelma og bendir á að handverkið gefi föngunum tilgang. Rannsóknir á verkefninu hafa sýnt fram á mælanlegan árangur, svo sem að ofbeldi minnki og meiri ró færist yfir deildirnar.
Upplifun fanganna rímar við það sem gerist í endurhæfingunni; fólk kemst í ástand sem kallað er flæði, þar sem staður og stund gleymist. „Þeir lýsa því sjálfir: Við erum í 17 tíma inni í þessum klefa en allt í einu líður þetta bara eins og tveir tímar,“ segir Thelma.
Thelma Björk er með meistaragráðu í listkennslu.
Ekki ein á ferð
Í Ljósinu er lögð sérstök áhersla á samfélagið sem myndast í kringum sköpunina. Á námskeiðinu vinna þátttakendur ekki aðeins að eigin verkum heldur leggja hönd á plóg við sameiginlegan dúk. Þessi aðferðafræði byggir meðal annars á íslenskri rannsókn á konum í krabbameinsmeðferð.
„Rannsóknir hafa sýnt fram á það að handverk sem gert er í hóp hefur dýpri áhrif á andlega líðan,“ segir Thelma. Niðurstöðurnar leiddu í ljós að þeim konum sem unnu handverk saman í hóp leið betur andlega, bæði á meðan á meðferð stóð og eftir að henni lauk, samanborið við þær sem unnu handverk einar heima.
Við borðið í Ljósinu verður til rými þar sem fólk er ekki eitt. „Við vinnum í einn dúk og þá er hugmyndafræðin um það að þú ert ekki ein,“ segir Thelma. „Þú ert partur af samfélagi“.
„Við vinnum í einn dúk og þá er hugmyndafræðin um það að þú ert ekki ein,“ segir Thelma.
„Þú ert partur af samfélagi“
Sköpunargleðin fær hér að njóta sín vel.
Heilagt rými
Fyrir fólk sem tekst á við alvarleg veikindi og áföll getur verið erfitt að finna orð til að lýsa líðan sinni. Thelma lýsir stundum námskeiðinu sem „heilögu rými“ þar sem þátttakendur fá hvíld frá álagi, verkjum og áhyggjum.
„Þú þarft ekki að vita neitt, þú þarft ekki að segja neitt. Þú færð bara að gera eitthvað en ert samt í öruggum hóp með konum sem þú veist að skilja þig hundrað prósent,“ segir Thelma.
Sjálf þekkir hún þessa upplifun af eigin raun en hún greindist með brjóstakrabbamein með meinvörpum. Hún lýsir veikindunum sem verkefni sem klárast ekki; hún er í varanlegri meðferð og þarf því að læra að lifa í óvissunni. Þessi veruleiki endurspeglast beint í hugmyndafræði námskeiðsins Slakað og skapað, þar sem áherslan er færð frá lokaútkomunni yfir á sjálft sköpunarferlið.
„Ég mun aldrei fara í lokalyfjagjöfina mína, ég mun alltaf vera í lyfjagjöf ,“ segir Thelma og bendir á að þess vegna sé stærsta verkefnið að finna hugrekkið til að halda áfram á ferðalaginu. Handverkið verður leið til að æfa þessa hugsun – að njóta augnabliksins við að skapa, í stað þess að bíða eftir að verkinu ljúki.
„Við erum alltaf að fókusera bara á leiðina,“ segir hún. Þannig verður handverkið að handfastri hugleiðslu sem hjálpar fólki að komast úr „þvottavélinni“ í höfðinu og niður í hjartað. Eins og Thelma orðar það: „Kyrrlátur hugur er skapandi hugur “