Ljósablaðið

1. TBL. 19. ÁRG 2025

Uppfærð framtíðarsýn á eigin forsendum 

Höfundur

Matti Ósvald, heilsufræðingur og markþjálfi

Ljósmyndari

Hulda Margrét

Markþjálfa samtöl miðast að því að taka stöðuna í núinu og horfa áfram veginn. 

Margir sem greinast með alvarlegan sjúkdóm eða lenda í óumbeðnum torfærum í lífinu kannast við að lífið, eins og maður þekkir það fari á hvolf. Það getur reynt á bæði andlega og líkamlega á þann hátt að þeir sem ekki hafa farið í gegnum það gera sér ekki grein fyrir hvað fylgir. Eitt af því sem Ljósið býður upp á eru markþjálfasamtöl.

Það er ansi mikið ferli sem fylgir meðferðum þeirra sem greinast. Þó það sé auðvitað mismunandi hjá fólki þá tengja líklega flestir við að þetta hafi mikil og víðtæk áhrif á lífsstílinn, heilsuna og þá orku sem fólk hefur til að tækla daginn og hversdagslegt líf. Áföll hafa mikil áhrif á okkur, ekki síst á einbeitingu, huga og andlega líðan, og hef ég séð marga fara í gegnum hreint og klárt sorgarferli án þess að gera sér grein fyrir því.

Oft hefur þetta þau áhrif að fólk byrjar að endurhugsa eða endurmeta ýmsa þætti í lífinu og fær í leiðinni aukið rými til að skoða hvert það vill stefna eða hvernig það vill að lífið líti út eftir ferlið. Gildin og það sem er mikilvægast í lífi viðkomandi fær þá oft eins konar uppfærslu.

Í mikilli streitu sem þessu getur fylgt virkar hugurinn oft ekki alveg eins og hann gerði áður. Í óvissunni á fólk oft erfitt með að setja sér stefnu eða markmið eða hreinlega sjá fyrir nema allra nálægustu skrefin í þessu óvænta ferðalagi. Markþjálfa samtöl miðast að því að taka stöðuna í núinu og horfa fram veginn. Samtölin geta hjálpað viðkomandi að marka leiðina og finna hvernig og hvaða skref viðkomandi getur tekið til að komast aftur inn í lífið og aftur til vinnu þegar það er möguleiki.

Það reynir oft á að komast aftur inn í lífið eða á vinnustaðinn sinn. Margir geta ekki beðið eftir að fara að vinna aftur, fá sjálfa/n sig til baka, skiljanlega. Af þeirri ástæðu eiga sumir það til að fara örlítið of geyst af stað.

Ég mun aldrei gleyma orðum eins skjólstæðings, sem hafði starfað sem tölvu- og tæknisérfræðingur. Hann gat ekki beðið eftir að komast aftur til vinnu, sérstaklega vegna þess hve gott fólk starfaði þar. Hann kom aftur til mín, eftir að hafa snúið aftur til vinnu, mjög undrandi, og sagði: „Ég bara gat ekki höndlað fólkið. Ég þoldi ekki áreitið.“ Svo bætti hann við: „Mér leið svolítið eins og humri sem er búinn að týna skelinni sinni.“

Margir tengja við þetta því það tekur tíma eftir svona ferli að mynda nýja og sterka „skel“. Þessi tiltekni maður tæklaði stöðuna vel, æfði sig og náði góðri lendingu á vinnustaðnum á frekar stuttum tíma.

Það er vel þekkt að mikil streita skerðir einbeitingu og streituhormón setja af stað ósjálfrátt varnarviðbragð sem oft er kallað „að hrökkva eða stökkva“ (e. fight or flight). Þá reynist mörgum erfitt að beina athygli að mikilvægum markmiðum og horfa til framtíðar.

Markþjálfun í endurhæfingu er í raun eins og að fá aðstoðarmanneskju sem vinnur í fullum trúnaði og hjálpar þér að móta nýja og eftirsóknarverða framtíðarsýn á þínum eigin forsendum.