Ljósablaðið

1. TBL. 19. ÁRG 2025

Ekki bara matur: Næring sem styður við bataferlið og eflir lífsgæði

Höfundar

Lilja Guðmundsdóttir, næringarfræðingur

Rannveig Björnsdóttir, næringarfræðingur

Ljósmyndari

Ólöf Erla Einarsdóttir

Næring gegnir mikilvægu hlutverki þegar kemur að forvörnum en er ekki síður mikilvæg í tengslum við meðferð og endurhæfingu.

Í Ljósinu fer fram heildræn og þverfagleg endurhæfing þar sem hugað er að líkamlegum, andlegum og félagslegum þáttum heilsu og vellíðunar . Næring er mikilvægur hluti af þessari nálgun, enda hefur hún áhrif á bæði líkamlegt og andlegt ástand og getur jafnframt skapað tækifæri til félagslegra tengsla.

Af þessum sökum er mikil áhersla lögð á fræðslu og stuðning tengdan næringu í Ljósinu, bæði í formi einstaklingsráðgjafar og fræðslufyrirlestra. Þar að auki er í húsinu lítið eldhús og hlýlegur matsalur þar sem Ljósberar og aðstandendur þeirra geta komið saman og notið þess að borða næringarríkan og ljúffengan mat í góðum félagsskap.

Í Ljósinu starfa tveir næringarfræðingar, hún Rannveig Björnsdóttir og Lilja Guðmundsdóttir, sem hvor um sig leggja sitt af mörkum til að hafa jákvæð áhrif á næringarinntöku og vellíðan þjónustuþega. Rannveig sinnir einstaklingsbundinni næringarráðgjöf og fræðslu, þar sem hún aðstoðar fólk við að finna nærandi og raunhæfar leiðir til að styðja líkamann í gegnum meðferð og endurhæfingu. Hún hefur dýrmæta innsýn inn í meðferðar- og endurhæfingarferlið þar sem hún hefur sjálf greinst tvisvar sinnum með krabbamein. Hún þekkir því vel þær áskoranir sem fylgja aukaverkunum lyfjameðferðar og getur miðlað af reynslu sinni í ráðgjöfinni.

Lilja starfar í eldhúsinu hluta úr viku, þar sem hún hefur yfirsýn yfir samsetningu og næringargildi máltíða. Hún sinnir einnig fræðslu á formi fyrirlestra og vinnur að nýju fræðsluefni um næringu í tengslum við krabbamein, meðferð og endurhæfingu. Þá vinnur hún einnig að uppskriftabæklingi með vinsælustu réttum eldhússins, að mati þjónustuþega.

Dásamlegur hummus

Hvaða hlutverki gegnir næring í tengslum við krabbamein og endurhæfingu?

Rannsóknir sýna að með næringarríku og fjölbreyttu fæðuvali í hæfilegu magni er hægt að draga úr líkum á krabbameini og öðrum sjúkdómum. Þannig gegnir næring mikilvægu hlutverki þegar kemur að forvörnum en er ekki síður mikilvæg í tengslum við meðferð og endurhæfingu.

Góð næringarinntaka er sérstaklega mikilvæg í því samhengi, því bæði sjúkdómurinn og meðferðin geta haft áhrif á fæðuval, matarlyst og getu til að borða. Þau geta einnig haft áhrif á hvernig líkaminn þolir ákveðin matvæli og nýtir tiltekin næringarefni.

Almennt er mælt með því að þessi hópur fylgi almennum ráðleggingum um mataræði, sem gefnar eru út af Landlæknisembættinu, nema undirliggjandi ástæður komi í veg fyrir að það sé hægt (sjá ráðleggingarnar í heild sinni með því að fylgja eftirfarandi slóð:

https://island.is/mataraedi-radleggingar-landlaeknis

Í grunninn fela þessar ráðleggingar í sér að við:

  • Borðum fjölbreytta fæðu, með áherslu á mat úr jurtaríkinu, í hæfilegu magni.
  • Veljum grænmeti, ávexti og ber – fimm skammta, helst átta á dag og að að minnsta kosti helmingurinn af því sé grænmeti.
  • Veljum heilkorn, helst þrjá skammta á dag.
  •  Veljum fisk, baunir og linsur oftar en rautt kjöt.
  • Veljum ósætar og fituminni mjólkurvörur daglega.
  • Veljum fjölbreytta og mjúka fitugjafa.
  • Tökum D-vítamín sem bætiefni daglega.
  • Veljum vatn umfram aðra drykki.
  • Takmörkum neyslu á sælgæti, snakki, kökum, kexi og sætum drykkjum.
  • Takmörkum neyslu á rauðu kjöti og sneiðum hjá unnum kjötvörum.
  • Minnkum saltið.


Vert er að nefna að meðan á krabbameinsmeðferð stendur geta komið upp ýmsar áskoranir sem gera það að verkum að erfitt getur reynst að uppfylla orku- og næringarefnaþörf. Í slíkum tilfellum þarf að gera ráðstafanir sem geta falið í sér að víkja tímabundið frá almennum ráðleggingum um mataræði, til að tryggja næga orku- og næringarinntöku. Til dæmis gæti fólk þurft orku- og próteinbættan mat til að viðhalda eða ná upp þyngd, eða kaldan og mjúkan mat eins og þeytinga, ís eða mjólkurhristinga ef viðkomandi er með sár í munni eða hálsi sem gera það að verkum að erfiðara verður að borða.

Þegar verið er að finna bestu leiðina til að mæta næringarþörfum hvers og eins þarf því alltaf að horfa til einstaklingsmiðaðra þátta eins og tegundar krabbameins, meðferðar og aukaverkana. Því getur verið mjög gagnlegt að fá ráðgjöf frá næringarfræðingum sem hafa sérþekkingu á næringu í tengslum við krabbamein og endurhæfingu. Það er einmitt af þeirri ástæðu sem Ljósið leggur áherslu á að þjónustuþegar fái tækifæri til að hitta slíka sérfræðinga í endurhæfingarferlinu.

Hlutverk næringarfræðinga
Næringarfræðingar veita einstaklingsbundna ráðgjöf og næringarmeðferð sem tekur mið af sjúkdóms- og næringarástandi. Krabbameinsmeðferð, hvort sem um skurðaðgerð, lyfjameðferð eða geislameðferð er að ræða, getur haft áhrif á getu til að nærast og hvernig líkaminn meltir og nýtir fæðuna. Þegar meðferðin veldur, eða líklegt er að hún valdi, næringartengdum vandamálum er sérstaklega mikilvægt að leita ráðgjafar hjá næringarfræðingi. Næringarfræðingar Ljóssins leiðbeina einnig þjónustuþegum sem vilja bæta mataræðið sitt og þurfa stuðning til að setja sér raunhæf markmið.

Markmið næringarmeðferðar

  • Tryggja að næringar- og orkuþörf líkamans sé mætt.
  • Viðhalda þyngd, vöðvamassa og góðu næringarástandi.
  • Fyrirbyggja og meðhöndla aukaverkanir eins og lystarleysi, flökurleika, bragðskynsbreytingar, særindi í munnslímhúð, munnþurrk, kyngingarerfiðleika, niðurgang, hægðatregðu og fleira sem getur haft áhrif á matarlyst og löngun til að borða.
  • Minnka líkur á sýkingum og flýta fyrir bata og endurhæfingu.
  • Bæta lífsgæði á meðferðartímabilinu.

Það er ekki óalgengt að þjónustuþegar haldi að næringarráðgjöf eigi ekki endilega við um þá. Sumir halda að það þurfi að vera komin upp alvarleg vandamál, eins og mikið þyngdartap eða lystarleysi, áður en leitað er til næringarfræðings. Aðrir kunna að vera óöruggir eða jafnvel hræddir við að mæta, óttast að finna fyrir dómhörku, fá „bannlista“ yfir það sem má ekki borða eða að ráðgjöfin verði of flókin.

Í raun snýst næringarráðgjöf hins vegar ekki um að setja hömlur, heldur um að finna raunhæfar og einstaklingsmiðaðar leiðir til að styðja við líkamsstarfsemi og bæta líðan, allt út frá aðstæðum hvers og eins. Það getur verið jafn einfalt og að ræða hvaða breytingar er hægt að gera til að auka orkuna yfir daginn, finna bragð og áferð sem hentar vel þegar lystin minnkar, eða aðlaga máltíðir að meltingartengdum áskorunum eða og aukaverkunum meðferðar – bara svo eitthvað sé nefnt. Oft felst lausnin í litlum breytingum, eins og að skipta út hráefnum, breyta tímasetningu máltíða eða prófa nýjar leiðir til að nærast sem gera næringarinntöku bæði þægilegri og ánægjulegri.

Næringarráðgjöf er fyrir alla – hvort sem fólk vill bæta almennt mataræði, hafa jákvæð áhrif á einkenni, eða einfaldlega fá hugmyndir um hvað gæti virkað fyrir það á þessum tíma. Það er aldrei of snemmt eða of seint að leita ráða og allar spurningar eiga rétt á sér.

Nýbakað súrdeigsbrauð

Matseld í Ljósinu

Frá því að Ljósið flutti á Langholtsveginn árið 2007 hefur lítið og hlýlegt eldhús verið starfrækt í húsinu. En þar var orðatiltækið „Þröngt mega sáttir sitja” óspart notað, þar sem plássið var af skornum skammti, bæði til að athafna sig við eldamennskuna, en einnig til þess að setjast niður og borða. Sumarið 2024 var vinna hafin við að gera eldhúsið alveg upp og var nýja eldhúsið tekið í notkun snemma á þessu ári. Framkvæmdirnar urðu til þess að rýmið er orðið mun opnara og bjartara ásamt því að við bættist glerskálinn okkar þar sem hægt er að setjast niður og borða. Pláss fyrir fólk í sæti jókst því um meira en helming. Það voru Kaupmannasamtök Íslands sem styrktu Ljósið svo hægt væri að fjármagna þessar framkvæmdir.

Í Ljósinu stendur Ljósberum og aðstandendum þeirra til boða að kaupa heitan mat í hádeginu alla virka daga vikunnar. Boðið er upp á aðalrétt - stundum tvo valkosti - auk súpu, fjölbreyttra salata, soðinna eggja og heimagerðs brauðs. Lögð er mikil áhersla á fersk og næringarrík hráefni, og er maturinn eldaður frá grunni.

Í Ljósinu er einungis boðið upp á grænmetisfæði og eru nokkrar ástæður fyrir því.

Almennt er neysla fólks á plöntupróteinum og fæðu úr jurtaríkinu of lítil – t.d. á linsum, baunum, tófú, hnetum, fræjum, heilkorni, ávöxtum og grænmeti. Með því að bjóða upp á bragðgóðan og næringarríkan mat úr þessum hráefnum er ekki aðeins stuðlað að aukinni fjölbreytni í fæðuvali og næringarinntöku, heldur fá gestir einnig tækifæri til að smakka, upplifa nýjar bragðsamsetningar og kynnast fjölbreyttum leiðum til matargerðar. Þannig aukast líkurnar á að fólk tileinki sér meira af þessum hollu og umhverfisvænu fæðutegundum í eigin eldamennsku til framtíðar.

Með því að bjóða eingöngu upp á grænmetisfæði í Ljósinu er hægt að halda matarkostnaði niðri án þess að það komi niður á næringargildi eða gæðum máltíða. Grænmetisréttir eru almennt ódýrari í hráefniskaupum og krefjast minni orkunotkunar við framleiðslu. Á sama tíma styður þessi valkostur við umhverfisvernd, þar sem framleiðsla á matvælum úr jurtaríkinu hefur mun minna kolefnisfótspor en kjötframleiðsla. Með þessu stuðlar Ljósið bæði að sjálfbærni og hagkvæmni í þágu þjónustuþega sinna.

Á sama tíma og gætt er að fjölbreytni í fæðuvali er einnig hugað að samsetningu orkuefnanna. Þar sem mörgum getur reynst áskorun að ná uppí fullnægjandi próteininntöku á grænmetisfæði, er þess sérstaklega gætt að hver máltíð innihaldi góða uppsprettu plöntupróteina á borð við tófú, baunir, linsur, hnetur eða fræ. Að auki bjóðum við upp á soðin egg sem styðja enn frekar við próteininnihald og stuðla að vel samettri máltíð.

Í Ljósinu er einungis boðið upp á grænmetisfæði

Ekki er hægt að tala um matseldina í Ljósinu án þess að fjalla um yfirkokkinn okkar, hana Daivu. Hún hóf störf í Ljósinu í upphafi árs 2015 en hafði áður starfað sem yfirkokkur á veitingastaðnum Grænum kosti. En fyrir þau sem ekki er kunnugt um staðinn var Grænn kostur brautryðjandi í gerð grænmetisrétta hér á landi og var starfræktur í rúmlega 20 ár. Sjálf gerðist Daiva grænmetisæta um það leyti sem hún hóf störf þar. Hún segir það hafa komið náttúrulega eftir að hún fór að elda fyrir fólk sem kunni að meta grænmetismat og fannst það jafnframt hafa góð áhrif á líkama og sál. Með tímanum varð þetta svo hennar lífsstíll. Daiva hefur búið hér á landi undanfarin 25 ár en er enn í góðum tengslum við matarmenningu heimaslóða sinna í Litháen og hefur öðru hvoru boðið upp á rétti þaðan. Hún hefur t.d. verið að bjóða upp á súrkál, eins og þekkist mikið í litháískri eldamennsku. Áhugi hennar á matargerð kviknaði snemma en hún segist hafa byrjað að elda eigin rétti þegar hún var einungis 9 ára gömul og kveðst strax hafa fundið ánægju í að skapa eitthvað bragðgott úr einföldum hráefnum. Hún byrjaði fljótt að lesa sér til um matargerð og safna uppskriftum. Hún var almennt uppátækjasöm og forvitin í eldhúsinu og fannst gaman að prófa eitthvað nýtt. Þessi ástríða hefur því fylgt henni alla tíð síðan.

Réttirnir sem hún eldar í Ljósinu eru fjölbreyttir og sækja innblástur í hina ýmsu menningarheima – allt frá afrískum og indverskum réttum með bragðmiklum kryddblöndum, til asískra wokrétta, ítalskra pastarétta og marokkóskra pottrétta. Inn á milli má líka finna milda og hefðbundna norræna rétti og jafnvel einhverja með smá baltískum blæ. Þannig verður hádegismaturinn í Ljósinu bæði nærandi og ævintýralegur – sannkallað ferðalag um bragðheima heimsins. En eins og Daiva segir reglulega að þá eru krydd og kryddblöndur hjarta og sál grænmetisrétta vegna þess að þau skapa jafnvægi, hlýju og karakter í hverjum bita.

Að lokum viljum við deila með ykkur næringarríkri uppskrift að þeytingi sem hentar sérstaklega vel þegar matarlystin er af skornum skammti eða ef særindi eru í munni eða hálsi. En svo er hann líka tilvalinn beint eftir æfingar eða þegar maður er í stuði fyrir eitthvað kalt og frískandi.

Orku- og próteinbættur þeytingur

Hráefni

150 g frosinn banani

1 lítil ferna rauð hleðsla

1,5-2 msk kakóduft

1 msk hnetusmjör

1 msk mulin hörfræ

3 döðlur

Aðferð

  • Setjið öll hráefni í öflugan blandara og látið ganga þar til jöfn og mjúk áferð næst. Í sumum tilfellum þarf að byrja á því að setja bananann í blandarann og láta blandarann ganga þar til mjúk áferð næst, skafa niður meðfram hliðum og bæta að lokum restinni af hráefnunum við.
  • Hellið í glas og njótið!

Uppástungur

Engin hleðsla: Hleðslunni má skipta út fyrir mjólk en athugið að þá lækkar próteininnihald drykkjarins og súkkulaðibragðið verður ekki eins ríkt.

Þykkari áferð: Notið meira magn af frosnum banana, hellið í skál og borðið með skeið.

Toppings: Skreytið með hnetum, fræjum eða kakónibbum.

Næringargildi í einum skammti:

Orka: 485 kkal

Fita: 13,7 g

Kolvetni: 72,4 g

Trefjar: 9 g

Prótein: 28,8 g

Salt: 0,27 g