Agnes Smáradóttir, yfirlæknir lyflækninga krabbameina á Landspítala
Agnes hefur komið að vinnu við alþjóðlega gæðavottun fyrir krabbameinsþjónustu Landspítala. Hún segir að í nútíma krabbameinslækningum sé endurhæfing nauðsynleg, ekki valkvæð viðbót.
Endurhæfing er ekki gæluverkefni. Alls ekki,“ segir Agnes ákveðin. Hún bendir á að í vottuninni séu skýr skilyrði um endurhæfingu. „Þar kemur fram að það þarf bæði að meta endurhæfingarþörf með skipulegri skimun (e. structured screening) sem og að vísa fólki tímanlega í endurhæfingu, hvort sem það er innan stofnunar eða utan.“ Agnes segir hlutverk Ljóssins í þessu ferli lykilatriði: „Hér horfum við meðal annars til Ljóssins til að uppfylla þessi skilyrði vottunar.“
Aðspurð segist Agnes telja að misskilnings gæti um mikilvægi starfseminnar fyrir heilbrigðiskerfið hjá yfirvöldum. „Ljósið er eina stofnunin sem sinnir endurhæfingu allra þeirra sem greinst hafa með krabbamein, óháð tegund, fyrir utan þau sem liggja á sjúkrahúsi, sem er bara brot af fjöldanum,“ segir hún.
„Fólk getur lifað í tugi ára eftir greiningu“
Agnes bendir á að krabbamein sé ekki lengur sami dómur og áður. „Fólk getur lifað í tugi ára eftir greiningu og sumir lifa í mörg ár með útbreitt krabbamein,“ segir hún. Meðferðir hafa breyst og fólk lifir lengur og betur. Agnes bendir jafnframt á að nýjustu rannsóknir sýni að skipulögð endurhæfing bæti ekki aðeins líðan heldur geti hún minnkað líkur á að greinast aftur.
Hún rifjar upp hvernig staðan var áður fyrr. „Ég man alveg eftir því að fólk var lagt inn á spítala, jafnvel bara vegna áfallsins við að greinast. Þetta er mikið áfall og mikið álag á fjölskyldur.“ Í dag grípur Ljósið oft fólk við þessar aðstæður og veitir stuðning sem áður vantaði. Árangurinn er einnig sýnilegur að sögn Agnesar: „Maður sér virkilega mun á fólki varðandi færni, styrk og andlegt atgervi. Það er bara þannig.“
Hún bendir á að hefðbundnar endurhæfingarstofnanir sinni ekki umræddum hópi. „Grensás tekur almennt ekki við sjúklingum með krabbamein og Reykjalundur tekur einungis við ákveðnum hóp,“ útskýrir hún. Þar sem Landspítalinn hefur hvorki aðstöðu né mannskap til að veita göngudeildarsjúklingum endurhæfingu er Ljósið nauðsynlegur samstarfsaðili.
Tryggja að fólk fái tækifæri til að ná sem mestum bata
Agnes nefnir sérstaklega hóp ungs fólks sem greinist. „Þetta fólk sem er kannski í mjög þungri læknanlegri meðferð og á allt lífið fram undan,“ segir hún. Hún varar við aukinni hættu á lífsstílstengdum sjúkdómum síðar á ævinni hjá þessum hópi og segir því „mjög mikilvægt að þau fái góða endurhæfingu“ strax.
Að mati Agnesar er nauðsynlegt að til sé endurhæfing sérstaklega fyrir þá sem greinast með krabbamein. Æ fleiri rannsóknir sýna fram á mikilvægi þess.
„Í ljósinu hefur byggst upp sérþekking á síðastliðnum árum og náið samstarf er milli Landspítala og Ljóssins. Ég myndi vilja hvetja stjórnvöld til að fjárfesta í endurhæfingu þar sem sérþekking er til staðar og tryggja að allir sem greinast með krabbamein, og þurfa á sérhæfðri endurhæfingu að halda, fái tækifæri til þess að ná sem mestum bata.“